Körfubolti: Óafsakanleg frammistaða í ósigri gegn Hamri – Myndir
Höttur tapaði 75-96 fyrir Hamri í mikilvægum leik í fyrstu deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Þjálfari liðsins segir frammistöðu þess hafa verið slaka og liðið skorti stöðugleika. Góðu fréttirnar séu að stutt sé í næsta leik.Leikurinn var jafn fyrstu þrjá leikhlutana. Höttur leiddi með einu stigi í hálfleik, 41-40 eftir að hafa haft undirtökin í öðrum leikhluta. Munurinn hefði mátt vera stærri en Hattarmenn fengu þriggja stiga körfu á sig í blálokin úr sókn sem hófst þegar sex sekúndur voru eftir.
Hamar seig fram úr í lok þriðja leikhluta og var yfir 65-69. Á lokamínútunni fékk Bandaríkjamaðurinn Charles Clark sína fimmtu villu og þar með útilokun. Fyrst fyrir að brjóta af sér og strax í kjölfarið tæknivillu fyrir mótmæli.
Fjarvera Clark setti mark sitt á leik hattar í síðasta leikhlutanum þar sem Hamar stakk af. Hann var næst stigahæstur með 23 stig en André Huges skoraði 25. Everage Richardson skoraði 40 stig fyrir gestina.
Verða ekki byrjendur í körfubolta á einum degi
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var síður en svo sáttur við frammistöðu liðsins í gærkvöldi. „Mér fannst hún algjörlega ósafsakanleg. Við náðum aldrei takti í leiknum. Við gerðum alltof mikið af klaufamistökum inn á milli og spiluðum ekki sem lið heldur vorum í einstaklingshnoði hér og þar.“
Það segir sína sögu að skotnýting liðsins úr þriggja stiga skotum var 8%. „Að hluta til völdum við vond skot en svo hittum við bara illa. Við virtumst andlega fjarverandi á vítalínunni þar sem við hittum úr 7 af 18 skotum. Menn verða ekki byrjendur í að kasta körfubolta einn daginn.“
Hann var heldur ekki sáttur við brottrekstur Clark sem náði sér í tvær villur í röð. „Það skiptir máli að missa hann því hann er okkar besti maður. Ég er vonsvikinn með viðbrögð hans, þetta var dómgreindarbrestur.“
Samkeppni á toppi deildarinnar er hörð. Höttur, Hamar og Vestri eru öll með 22 stig í 3. – 5. sæti, tveimur stigum á eftir Fjölni. Höttur á leik til góða á þessi lið. Þór Akureyri er með 28 stig og efsta sætið. Höttur fer norður á föstudag.
„Það skiptir máli að enda sem efst í deildinni til að fá heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Það góða eftir þennan afleita leik er það að það er ekki langt í þann næsta. Þar getum við reynt að sýna okkar rétta andlit. Við höfum verið mjög óstöðugir í vetur, við getum verið mjög góðir eða dottið niður á mjög lágt plan.“
Sjöundi ósigurinn í röð
Kvennalið Þróttar í blaki tók á móti Völsungi í úrvalsdeild kvenna á laugardag og tapaði 0-3 eða 19-25, 24-26 og 21-25 í hrinum. Illa hefur árað fyrir liðinu sem þar með tapaði sínum sjöunda leik í röð. Það er í neðsta sæti deildarinnar og á erfitt verk fyrir höndum með að komast inn í úrslitakeppnina, þrátt fyrir að eiga leiki til góða.