Körfubolti: Öruggur sigur á Fjölni

Höttur vann í gær þægilegan sigur á Fjölni í fyrstu deild karla í körfuknattleik, 92-78, en liðin mættust á Egilsstöðum. Góður kafli í strax í lok fyrsta leikhluta lagði grunninn af sigrinum.

Eftir að gestirnir höfðu verið yfir 18-20 skoruðu heimamenn 11 stig í röð síðustu þrjár mínútur fyrsta leikhluta og vor þannig yfir eftir hann, 29-20.

Ólukka gestanna hélt áfram því Hattarliðið skoraði fyrstu fimm stigin í öðrum leikhluta og var þá komið í 34-20. Bilið hélt svo áfram að breikka og var orðið 20 stig, 56-36, í hálfleik en gestirnir björguðu því sem bjargað varð með þriggja stiga flautukörfu.

Fjölnisliðið saxaði jafnt og þétt á forskot Hattar í þriðja leikhluta og náði því niður í 7 stig, áður en Höttur skoraði síðustu körfuna og fór inn í lokaleikhlutann með stöðuna 67-58. Þar snéri heimaliðið við þróuninni úr öðrum leikhluta, jók forustuna jafnt og þétt og vann að lokum 92-78.

Adam Eiður Ásgeirsson var stigahæstur hjá Hetti með 23 stig, en Tim Guers skoraði 21 og Matej Karlovic 19. Miðherinn Juan Luis var grimmur undir körfunni og hirti 14 fráköst, auk þess að skora fimm stig.

Með sigrinum komst Höttur upp að hlið Álftaness í öðru sæti deildarinnar. Bæði lið hafa 18 stig en Höttur á leik til góða. Haukar eru efstir með 20 stig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar