Körfubolti: Öruggur sigur á nágrönnunum frá Hornafirði

Höttur vann Sindra frá Höfn 107-63 þegar liðin mættust í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum á föstudagskvöld. Stærstu tíðindi kvöldsins voru þau að Hreinn Gunnar Birgisson, fyrrum fyrirliði, hefur dregið fram skóna á ný.

Strax í fyrsta leikhluta var í ljóst í hvað stefndi en Höttur var yfir að honum loknum, 31-18. Vörn Hattar var öflug í öðrum leikhluta sem varð til þess að Sindramenn skutu úr slæmum færum. Á sama tíma bætti heimaliðið í forskotið og var 53-30 yfir í hálfleik.

Bæði lið gerðu sig líkleg til að keyra upp hraðann í þriðja leikhluta en á sama tíma versnaði sóknarnýting þeirra. Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, greip inn í um miðjan leikhlutann með að taka leikhlé og eftir það skoraði Höttur 20 stig gegn 7 stigum gestanna og var 87-43 yfir fyrir síðasta leikhlutann.

Hann nýttist til að gefa yngri leikmönnum tækifæri, sem áttu ágæta spretti. Þá snéri fyrrum fyrirliðinn Hreinn Gunnar Birgisson aftur, en hann tók sér frí frá körfuknattleiksiðkun í haust vegna anna utan vallarins. Hann sýndi að hann hefur engu gleymt og má vænta þess að hann verði öflug viðbót fyrir lokasprettinn í deildinni.

Brynjar Snær Grétarsson og David Ramos voru stigahæstir í liði Hattar með 24 stig. Brynjar skoraði öll sín úr þriggja stiga skotum en hann setti niður átta af níu skotum.

Höttur, Breiðablik og Hamar eru eftir leikinn enn jöfn í efsta sæti deildarinnar með 30 stig meðan Sindri deilir botnsætinu með Snæfelli og Skallagrími, en hvert þeirra hefur fjögur stig. Stígandi hefur verið í liði Sindra í vetur en hópurinn var þunnskipaður á föstudaginn. Meðal annars vantaði fyrrum leikmann Hattar, Andrée Michelsson sem var meiddur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.