Körfubolti: Sigur gegn væntanlegum mótherjum í úrslitakeppninni

Höttur vann sinn síðasta heimaleik í fyrstu deild karla í körfuknattleik í vetur á Fjölni í gærkvöldi 102-85. Ekki er þess langt að bíða að liðin mætist aftur.

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og nokkrum sinnum skiptust liðin á forustu. Höttur skoraði til að mynda síðustu fimm stigin í fyrsta leikhluta og var þar með yfir 26-24.

Gestirnir komust yfir um kafla í öðrum leikhluta en aftur bjargaði Höttur sér í lokin. Tim Guers setti niður þriggja stiga körfu þegar 20 sekúndur voru til leikhlés, þar sem Höttur var yfir 45-44.

Í þriðja leikhluta var Höttur farinn að ná tökum á leiknum. Að honum loknum var forustan orðin 75-67 og í þeim síðasta sigldi liðið heim öruggum 102-85 sigri.

Tim Guers var stigahæstur með 25 stig en Brynjar Snær Grétarsson kom næstur með 21 stig og Adam Eiður Ásgeirsson skoraði 20.

Höttur á aðeins eftir einn leik, gegn deildarmeisturum Hauka í Hafnarfirði á föstudag. Haukar fara beint upp um deild en Höttur endar í öðru sæti og þarf að fara í gegnum úrslitakeppni. Fjölnir verður andstæðingurinn í undanúrslitum.

Fyrsti leikur liðanna verður föstudaginn 1. apríl. Vinna þarf þrjá leiki í bæði undanúrslitum og úrslitum til að komast upp. Leikið verður með tveggja daga millibili út apríl þar til úrslit liggja fyrir. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Sindri og Álftanes. Hornafjarðarliðið á heimaleikjarétt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar