Körfubolti: Sigur strax í fyrsta leik

Höttur hóf keppni í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöldi með 87-104 sigri á Grindavík á útivelli. Höttur náði snemma leiks tíu stiga forskoti og lét það aldrei af hendi.

Það var Deontay Buskey, nýr Bandaríkjamaður í liði Hattar, sem skoraði fyrstu körfu leiksins. Hún var þriggja stiga. Í kjölfarið skoraði Matej Karlovic aðra slíka körfu og staðan orðin 0-6. Eftir þrjár mínútur var hún orðin 2-11.

Höttur lét forustuna aldrei af hendi og aldrei náðu heimamenn í Grindavík að jafna. Höttur hitti vel úr þriggja stiga skotum í byrjun og byggði þannig upp forskotið.

Minnsti munur leiksins var í byrjun annars leikhluta. Grindavík hafði skoraði fjögur síðustu stigin í fyrsta leikhluta og náð muninum niður í 24-29 og skoraði síðan fyrstu körfu annars leikhluta þannig staðan varð 26-29.

Höttur svaraði strax með þremur þriggja stiga körfum og var því aftur komið í um 10 stiga forskot. Um miðjan leikhlutann var forskotið orðið 14 stig, 30-44 en Grindavík lagaði það ögn niður í 40-50 í háflleik.

Grindavík náði rispu í þriðja leikhluta, skoraði 12 stig í röð og lagaði svarta stöðu úr 45-62 í 57-62. Höttur svaraði þá með sjö stigum í röð og var kominn með sitt venjulega forskot á ný, 59-69. Í lok leikhlutans var staðan 66-75.

Kraftur var í Hetti í byrjun fjórða leikhluta þegar liðið komst í 69-85. Grindavík reyndi að draga á forskotið en gekk komst ekki nær en í kringum tíu stigin. Höttur skoraði síðan síðustu sex stigin í leiknum. Úrslitin voru þá ráðin og yngri leikmenn komnir inn á hjá báðum liðum.

Á sama tíma og varast ber að lesa of mikið úr leik Grindavíkur, sem vantaði tvo erlenda leikmenn, þá skipta tvö stig Hött alltaf máli, hvort sem liðið verður í baráttu um að komast í úrslitakeppnina eða forðast fall í lok leiktíðar. Þá ætti það að veita liðinu sjálfstraust að vinna fyrsta leikinn, nokkuð sem liðið hefur ekki áður afrekað í úrvalsdeildinni.

Buskey var stigahæstur með 28 stig, Karlovic skoraði 22 og Gustav Suhr-Jessen 20. Þá er vert að minnast á framlag Nemanja Knezevic sem tók 13 fráköst og skoraði 8 stig.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.