Körfubolti: Stjörnusigur lyfti Hetti upp í þéttan pakka

Höttur er komið í hóp fjögurra liða sem eru jöfn inn í síðustu sætin í úrslitakeppni úrvalsdeildar karlar í körfuknattleik eftir sigur á Stjörnunni í Garðabæ á föstudagskvöld. Úrslitin réðust í framlengingu þar sem Höttur spilaði frábærlega.

Höttur átti flottan fyrsta leikhluta, var yfir rétt fyrir lok hans 12-20, sem var mesti munur sem sást á liðunum í venjulegum leiktíma. Stjarnan skoraði hins vegar síðustu körfuna og því var staðan 14-20 þegar leikhlutanum lauk.

Leikurinn var áfram jafn í öðrum og þriðja leikhluta. Í hálfleik var Stjarnan komin yfir, 41-40 og hélt því 61-58 eftir þann þriðja.

Í fjórða leikhluta komu langir kaflar þar sem hvorugu liðinu tókst að skora. Höttur komst síðan yfir í fyrsta sinn síðan um miðjan annan leikhluta þegar Bryan Alberts setti niður þriggja stiga körfu þegar tæp mínúta var eftir, 70-72. Stjarnan jafnaði strax í næstu sókn. Bæði lið fengu færi síðustu hálfu mínútuna en nýttu þau ekki.

Höttur skoraði fyrstu körfu í framlengingunni og reyndar gott betur því liðið setti niður átta stig í röð áður en Stjarnan tók leikhlé eftir rúma mínútu. Það breytti litlu því Höttur fór á kostum í framlengingunni og vann hana 3-17 og leikinn þar með 89-75.

Tim Guers skoraði 24 stig fyrir Hött en Alberts 22. Nemanja Knezevic átti einnig góðan dag, skoraði 13 stig og tók 11 fráköst.

Úrslitin galopna deildina því Höttur er kominn með 14 stig, jafnmörg og Þór Þorlákshöfn, Stjarnan og Grindavík í 7. – 10. sæti. Höttur er sem stendur í því áttunda, sem er síðasta sætið í úrslitakeppni. Úrslit úr innbyrðisviðureignum ræður niðurröðuninni. Fjórum stigum neðar er ÍR í fallsæti en síðan eru tvö stig upp í Breiðablik og önnur tvö í Tindastól í fimmta sætinu. Toppliðin fjögur eru í sérflokki en KR á ekkert eftir nema falla formlega, á botninum með fjögur stig.

Framundan er tveggja vikna hlé vegna landsleikja.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar