Körfubolti: Þriðji ósigurinn í röð

Höttur tapaði á laugardagskvöld þriðja leik sínum í röð í úrvalsdeild karla í körfuknattleik þegar liðið lá 83-86 fyrir Þór Þorlákshöfn á heimavelli. Þór hafði forustuna allan leikinn en Hetti tókst að hleypa spennu í hann undir lokin.

Eins og fleiri lið, sem Höttur hefur spilað við að undanförnu, voru Þórsarar sérlega hittnir úr þriggja stiga skotum í byrjun. Nýtingin var 83% eftir fyrsta leikhluta og 64% í hálfleik.

Þetta varð til þess að Höttur lenti illa undir og var í stöðugum eltingarleik. Þór var yfir 18-23 eftir fyrsta leikhluta en Höttur lagaði stöðuna þar með að skora síðustu sjö stigin. Í hálfleik var staðan orðin 33-43 og í þriðja leikhluta var Þór lengst af með 15 stiga forustu og yfir 57-69 þegar fjórði leikhluti hófst.

Höttur saxaði smám saman niður muninn í fjórða leikhluta þannig að fjör hljóp í leikinn rúmlega síðustu mínútuna. Fyrst fór að fara um Þórsara þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, eftir fjögur stig í röð var staðan orðin 73-80 og gestirnir leikhlé. Það virkaði lítið, Höttur hélt áfram og skoraði næstu fimm stig, minnkaði muninn í 78-80.

Þá skoraði Þór þriggja stiga körfu og bjó til nýja brekku fyrir Hött, 78-83, þegar um mínúta var eftir. Höttur svaraði þó strax í sömu mynt, 81-84 og bætti við tveimur af vítalínunni í næstu sókn þannig staðan var orðin 83-84.

Þórsarar fóru í sókn og missti boltann út af en dómararnir sögðu varnarmann Hattar hafa snert hann. Sextán sekúndur voru þá eftir og Þór í stöðu til að halda boltanum út leiktímann. Þeir sóttu brot og nýttu bæði vítaskot sín.

Höttur tók leikhlé og hóf leik með innkasti hægra megin á vallarhelmingi Þórs. Þórsarar vörðust á þeim væng, boltinn gekk í gegnum teiginn út á Bryan Alberts sem fór upp í þriggja stiga skot, enda ekki annað í stöðunni fyrri Hött til að jafna.

Það dreif ekki einu sinni á körfuna en samherjar hans náðu boltanum og komu honum út í vinstra hornið þangað sem Alberts hafði fært sig. Hann fékk annað skotfæri en boltinn skoppaði af hringnum fjær.

Tim Guers var stigahæstur hjá Hetti með 27 stig. Hattarliðið er eftir sem áður í 9. sæti deildarinnar og mætir næst Tindastóli á Sauðárkróki á fimmtudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.