Körfubolti: Tvær síðustu körfur leiksins skutu Hetti í átta liða úrslit bikarsins

Karlalið Hattar er komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar í körfuknattleik eftir 82-84 sigur á Hamri í Hveragerði í gær. Höttur marði sigur með að skora fjögur síðustu stig leiksins eftir að hafa verið yfir lungann úr leiknum.

Liðin spila bæði í úrvalsdeildinni en Hamar er á botni hennar og hefur ekki enn unnið leik. Liðið hefur sýnt ágætan sóknarleik en vörnin verið hriplek.

Hún var það sannarlega í upphafi leiksins í gær þegar Höttur skoraði þrettán fyrstu stig leiksins. Eftir það jafnaðist leikurinn þótt Höttur væri yfir 14-22 eftir fyrsta leikhluta. Í hálfleik var munurinn kominn niður í þrjú stig, 38-41 en upp í 62-67 að loknum þriðja leikhluta.

Þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta komst Hamar í fyrsta sinn yfir í leiknum og átti eftir að bæta við einni körfu enn áður en Höttur tók leikhlé þegar sléttar sex mínútur voru eftir. Heimaliðið hafði þá skorað tíu stig í röð og breytt stöðunni úr 65-70 í 75-70.

Leikhléið skilaði árangri því Nemanja Knezevic setti strax niður þriggja stiga körfu. Leikurinn var þar með aftur kominn í seilingarfjarlægð fyrir Hött.

Lokaspretturinn byrjaði þegar 2:40 mínútur voru eftir og Hamar yfir 80-77. Adam Eiður Ásgeirsson jafnaði fyrir Hött með þriggja stiga körfu en Hamarsmenn komust aftur yfir með tveimur vítaskotum. Deontaye Buskey jafnaði í 82-82 fyrir Hött.

Við tóku tvær sóknir Hamars og ein hjá Hetti þar sem skotin geiguðu. Það var loks Buskey sem náði að koma niður körfu þegar rúmar sjö sekúndur voru eftir. Hamar fékk tækifæri á einu þriggja stiga skoti í viðbót en það rataði ekki ofan í.

Buskey og Obie Trotter voru stigahæstir hjá Hetti með 17 stig hvor. Nemanja Knezevic skoraði 11 stig og tók tíu fráköst. Áfram verður leikið í 16 liða úrslitunum í dag og eftir þá leiki skýrist hvaða liði Höttur mætir í átta liða úrslitunum. Liðið fór alla leið í undanúrslitin í fyrra.

Mynd: Daníel Cekic


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.