Körfubolti: Tveir nýir leikmenn í kvöld

Tveir nýir leikmenn spila með Hetti þegar liðið tekur á móti KR í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í dag. Þrír fulltrúar félagsins tóku þátt í landsleikjum í vikunni.

Fyrir síðasta leik hafði Höttur rift samningi sínum við Bandaríkjamanninn Courvoisier McCauley og sami við Justin Roberts. Roberts var ekki gjaldgengur í þeim leik en hann er kominn með leikheimild og verður með í kvöld.

Roberts er 26 ára bakvörður. Hann spilaði í vor í Norður-Makedóníu og var þar með tæp 26 stig að meðaltali í leik. Hann hefur einnig spilaði í Sviss eftir að hafa klárað háskólaboltann með Georgia State.

Þá er kominn til liðsins Gdeon Dimoke, 23ja ára franskur framherji. Honum er ætlað að fylla skarð Matej Karlovic sem glímir við meiðsli. Dimoke spilaði á síðustu leiktíð bæði í Litháen og Frakklandi.

Þrír fulltrúar Hattar voru viðloðandi landslið í þessari viku. Viðar Örn Hafsteinsson var í þjálfarateymi Íslands sem vann frækinn útisigur á Ítalíu á mánudagskvöld, 74-81. Gustav Suhr-Jessen og Adam Heede-Andersen voru í danska landsliðinu sem tapaði illa í tveimur leikjum fyrir Serbíu. Adam byrjaði fyrri leikinn og skoraði í honum sex stig en Gustav þann seinni.

Leikur Hattar og KR hefst í íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 18:00. Flug úr Reykjavík hefur verið á áætlun í dag og því á ekkert að hamla því að leikurinn geti farið fram.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar