Körfubolti: Tveir úrslitaleikir framundan hjá Hetti

Höttur á enn möguleika á að komast í úrslitakeppni úrvalsdeildar karla í körfuknattleik en getur líka með mikilli ólukku fallið. Liðið tapaði 84-89 gegn Keflavík í síðustu umferð.

Keflavíkurliðinu hafði vegnað illa leikina á undan en var engu að síður í hópi efstu liða þegar að leiknum á Egilsstöðum kom. Leikurinn varð nokkuð jafn þótt gestirnir væru nær allan tímann með frumkvæðið, yfir 26-31 eftir fyrsta leikhluta og 47-51 eftir annan.

Keflavík náði tólf stiga forustu um miðjan þriðja leikhluta, 54-66 en Höttur svaraði með tveimur þriggja stiga körfum þannig munurinn fór niður í sex stig. Keflavík bætti þó aftur í og var 64-72 yfir eftir leikhlutann.

Höttur byrjaði á þriggja stiga körfu og minnkaði þannig muninn í 67-72. Keflavík jók hann aftur og hélt Hetti í skefjum, aldrei þó þannig að leikurinn væri búinn og gestirnir gætu slakað á. Undir blálokin minnkaði Höttur muninn í 84-88 en hafði ekki tíma til að komast nær og Keflavík endaði á vítaskoti.

Bryan Alberts var stigahæstur með 21 stig, Tim Guers skoraði 19 auk þess að senda sjö stoðsendingar og Nemanja Knezevic skoraði 14 stig og tók 12 fráköst.

Tveir leikir eru nú eftir af deildakeppninni og þrátt fyrir að vera í 10. sæti getur Höttur enn unnið sig upp í áttunda sætið og þar með úrslitakeppnina. Fyrsta skrefið að því er leikur gegn Breiðablik í Kópavogi á fimmtudagskvöld.

Blikar eru í 9. sæti með 16 stig, líkt og Stjarnan en Höttur hefur 14. Það vill Hetti til happs að standa enn vel að vígi í innbyrðisviðureignum, sem ráða röðinni verði lið jöfn að stigum, gegn þessum tveimur liðum.

Síðasti leikurinn er gegn ÍR á Egilsstöðum. ÍR er í 11. sæti með 10 stig. Sá leikur gæti orðið úrslitaleikur um hvort liðið fellur ef ÍR vinnur Keflavík í næstu umferð meðan Höttur tapar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar