Körfubolti: Úrslitakeppni Hattar lauk í framlengingu gegn Val - Myndir

Leiktíðinni er lokið hjá körfuknattleiksliði Hattar eftir tap gegn Val í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla. Valur vann 97-102 eftir framlengdan leik. Valsliðið var yfir allan tímann en Höttur jafnaði í lok venjulegs leiktíma og knúði fram framlengingu.

Valsmenn voru sjóðheitir í byrjun, settu niður þrjár þriggja stiga körfur og komust í 0-9. Áfram syrti í álinn hjá Hetti og eftir tæplega fjögurra mínútna leik var Valur komið í 3-17. Höttur tók þá leikhlé enda komst liðið lítið áfram í sókninni gegn sterkri vörn gestanna sem einnig spiluðu hraðan sóknarleik og fundu opin skot.

Það lagaði stöðuna lítið, eftir fyrsta leikhluta var Höttur 15-28 undir. Augljós munur var á þriggja stiga skotum liðanna, Valur hafði sett niður sex slík og var með 55% nýtingu en ekkert af þeim sjö skotum sem Höttur reyndi utan línunnar fór ofan í.

Höttur kom muninum snemma undir 10 stig í öðrum leikhluta en Valsmenn svöruðu strax. Munurinn hélst því áfram í kringum 14 stigin og var þannig, 33-47 í hálfleik. Enn var það þriggja stiga nýtingin sem skildi á milli, þótt hún hefði heldur jafnast þar sem Höttur hafði skorað tvær slíkar körfur.

Staðan versnaði heldur framan af þriðja leikhluta og um hann miðjan varð mesti munur leiksins, 46-67. Eftir það fór Hetti að ganga betur, sóknirnar urðu hraðari og styttri. Enn tókst þó ekki að stöðva Valsmenn í sókninni. Svo fór að hvort lið skoraði 30 stig í leikhlutanum, sem er þvert á þeirra venjulega leik. Valur því enn yfir 63-77 og möguleikinn virtist fjarlægur gegn deildarmeisturunum.

11-0 kafli


Höttur hélt áfram á sömu braut í sókninni í fjórða leikhluta en loks fór vörnin að halda. Við það lifnaði líka rækilega yfir þeim rúmlega 700 áhorfendum sem allir nema tíu studdu Hött. Þannig saxaðist á forskot Vals. Fyrst hægt en munur undir tíu stigum telst ekki verulegur í körfubolta. Síðan kom áhlaup með 11 stigum í röð og Höttur jafnaði í 85-85 þegar 40 sekúndur voru eftir.

Liðin áttu eftir sína körfuna hvort áður en venjulegum leiktíma lauk. Það fór vel á því að það væri Deontaye Buskey, sem skoraði 13 stig í leikhlutanum, sem jafnaði. Valsmenn fengu lokasókn en tókst ekki að búa til gott skotfæri.

Eitt færi enn


Þeir tóku hins vegar völdin í framlengingunni og skoruðu fyrstu sex stigin. Þar með var orðið á brattann að sækja fyrir Hött sem þó átti eitt tækifæri eftir. Matej Karlovic skoraði þriggja stiga körfu og minnkaði muninn í 94-95. Næsta sókn Vals mislukkaðist og Höttur fékk sinn besta möguleika á að komast yfir í leiknum. Skot Buskey geigaði, Valsmenn náðu aftur þriggja stiga forskoti og kláruðu svo leikinn mest af vítalínunni.

Buskey var stigahæstur Hattarmanna með 29 stig. Hann tók átta fráköst, sem telst mjög gott fyrir bakvörð og fékk níu villur dæmdar á Valsmenn. Matej var næst stigahæstur með 20. Vert er a minnast á framlag miðherjans Nemanja Knezevic sem svo oft áður, 16 stig og 15 fráköst, þar af 12 sóknarfráköst.

Stoltur af árangrinum


„Ég er stoltur af mínum mönnum sem skildu allt eftir á gólfinu. Við breyttum aðeins taktinum þegar leið á, fórum að sækja hraðar á þá og fá betri færi. Varnarleikurinn var geggjaður,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar í leikslok.

„Auðviðað er ég tapsár og hefði viljað fara lengra, en ég held að ég sé enginn fáviti og sé það sem er jákvætt. Félagið fór lengra en áður og ég er stoltur af mínum leikmönnum og fólkinu í kringum okkur. Við höldum áfram að bæta ofan á mætum vonandi enn betri í næsta tímabil.“

Einar Árni hættur


Í leikslok var tilkynnt að Einar Árni Jóhannsson, sem þjálfað hefur liðið með Viðari frá árinu 2021, láti nú af störfum. Hann hefur einnig verið yfirþjálfari yngri flokka. „Það er ofboðslegur missir af Einari Árna. Það var frábært að fá hann inn, hann kom með mikla reynslu og gæði inn í félagi, bæði fyrir yngri flokka og meistaraflokk. Á hans tíma hefur fjölgað í yngri flokkum og meistaraflokkurinn náð sínum besta árangri síðan við hófum þessa vegferð fyrir 13-14 árum. Við þökkum fyrir hans framlag og vonandi náum við að fylla hans skarð,“ sagði Viðar. Ekkert liggur fyrir um frekari breytingar á leikmannahópi Hattar enn.

Karfa Hottur Valur Leikur4 0001 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0006 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0011 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0014 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0019 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0024 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0030 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0032 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0034 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0039 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0044 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0052 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0066 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0068 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0070 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0073 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0075 Web
Karfa Hottur Valur Leikur4 0077 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar