Körfubolti: Yfir 200 stig skoruð þegar Höttur vann Hamar

Meira en 200 stig voru skoruð samanlagt þegar Höttur vann Hamar í Hveragerði í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Höttur hefur þar með unnið þrjá af fyrstu fimm leikjum sínum í deildinni.

Hattarliðið er þekktara fyrir sterka vörn og þolinmóðan sóknarleik sem þýðir oft færri stig. Það var ekki uppleggið í gærkvöldi gegn Hamri, sem er með mjög gott sóknarlið sem ekki hefur jafn gaman af að spila vörn.

Fyrsti fjórðungur var nokkuð jafn en Höttur hafði 26-28 forustu eftir hann. Hamar komst yfir í skamma stund í byrjun annars leikhluta en Höttur snéri því fljótt við og átti svo frábæran kafla þegar liðið breytti stöðunni úr 41-42 í 41-53. Í hálfleik var staðan 44-56.

Hamar gerði áhlaup í þriðja leikhluta. Þegar tvær mínútur voru eftir af honum var staðan 69-73 og heimaliðið með boltann. Leikstjórnandi þess tók sér hins vegar of langan tíma til að komast yfir miðju. Hetti var dæmdur boltinn og liðið nýtti það til hins ýtrasta, skoraði síðustu sjö stig leikhlutans.

Hamar kom muninum tvisvar niður í sex stig í síðasta leikhlutanum og síðan fimm þegar nokkrar sekúndur voru eftir. Það var ekki nóg til að ógna forustu Hattar sem vann 102-109.

Jafn góð skotnýting og í gærkvöldi hefur sjaldan sést hjá Hetti. Leikmenn liðsins voru með 50% í þriggja stiga skotum og úr teignum auk þess sem öll vítaskotin fóru ofan í. Deontaye Buskey var stigahæstur með 23 stig en Gustav Suhr-Jessen og Nemanja Knezevic skoruðu 20 hvor.

Höttur er eitt fimm liða í deildinni sem unnið hafa þrjá af fyrstu fimm leikjum sínum. Annað hvort Keflavík eða Haukar bætast í þann hóp eftir leik þeirra í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.