Körfubolti: Yfir í aðeins þrjár mínútur en unnu samt

Höttur var aðeins yfir í tvær mínútur og 59 sekúndur í fyrsta leik liðsins gegn Fjölni í undanúrslitum fyrstu deildar karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld, en hafði þó sigur á einu stigi.

Höttur var yfir í níu sekúndur á annarri mínútu leiksins, komst í 5-4 en gestirnir úr Fjölni skoruðu níu sekúndum síðar. Forustunni náði Höttur ekki á ný fyrr en í fyrstu sókn fjórða leikhluta. Hún entist ekki lengi en loks komst Höttur yfir á ný þegar mestu skipti.

Í millitíðinni var leikurinn Fjölnis. Rafn Kristján Kristjánsson átti ljómandi fínan fyrsta leikhluta áður en Dwayne Foreman fór að taka við. Hetti gekk ekkert að stöðva stóra manninn framan af leik og í kringum hann var nóg af skyttum í stuði. Fjölnir var yfir, 29-36, eftir fyrsta leikhluta sem telst frekar hátt skor. Fjölnisliðið náði að keyra upp hraðann í leiknum meðan Hattarmenn vildu heldur róa hann.

Mest varð forusta Fjölnis um miðjan annan leikhluta, 37-50. Þá kom Adam Eiður Ásgeirsson inn hjá Hetti og vörnin fór að þéttast. Hattarmenn stigu lengra út á móti skyttum Fjölnis og náðu að hægja á leiknum. Þar með saxaðist á forskot gestanna en það var þó 52-58 í hálfleik.

Sá munur hélst að mestu í þriðja leikhluta en þó voru Fjölnismenn yfirleitt með forskot sem nam tveimur sóknum. Í hvert sinn sem Höttur nálgaðist Fjölni virtist Mirza Sarajlija geta rifið sig upp fyrir utan þriggja stiga línuna og smellt niður skoti, þremur slíkum náði hann niður í röð. Að lokum þraut það og Höttur náði að breyta stöðunni úr 72-79 í 78-79 áður en leikhlutanum lauk.

Loks yfir í byrjun fjórða leikhluta

Þeir héldu svo áfram og skoruðu fyrstu sex stigin í fjórða leikhluta, komust í 84-79, sem var mesta forusta heimaliðsins í kvöld. Fjölnir hékk þó í þeim og Hattarmenn fóru að lenda í vandræðum vegna villna, flestar við að reyna að halda aftur af hinum sterka Foreman. Þegar meira en sex mínútur voru eftir voru gestirnir komnir í bónus, það er fengu víti við hvert brot Hattar eftir að liðið fékk á sig fimmtu villuna í leikhlutanum.

Fjölnir náði góðri rispu, breytti stöðunni úr 88-86 í 88-93. Tim Guers setti þá niður mikilvæga þriggja stiga körfu til að halda gestunum í seilingarfjarlægð. Höttur hélt áfram að elta, í vörninni einbeitti liðið sér að Foreman og Mirza sem varð til þess að losnaði um aðra leikmenn Fjölnis.

Höttur nýtti átta sekúndurnar

Bæði lið klikkuðu á góðum færum í stöðunni 102-104 en Höttur náði í næstu sókn að opna fyrir David Guardia sem setti niður þriggja stiga skot með 40 sekúndur eftir og kom Hetti í 105-104. Fjölnismenn fóru í sókn en sendu boltann út af. Höttur átti því boltann þegar minna en hálf mínúta var eftir. Sóknin gekk þokkalega og opnað var fyrir Matej Karlovic en þriggja stiga skot hans fór í hringinn og til Fjölnismanna. Þeir keyrðu fram og fengu villu sem þýddi að þeir voru enn eina ferðina komnir á vítalínuna. Þar setti Rafn Kristján bæði skotin niður og Fjölnir kominn í 105-106.

Höttur tók leikhlé til að útfæra þær átta sekúndur sem liðið hafði úr að spila. Sett var upp kerfi þar sem Guers keyrði inn að körfunni. Honum tókst að ná í villu og setti niður bæði skotin. Fjölnir fékk fjórar sekúndur. Boltinn fór beint á Foreman sem lék að þriggja stiga línunni en skot hans var alltaf of langt til vinstri og beygði út af hringnum þegar klukkan gall.

Hrósaði Fjölnismönnum

„Þetta er keppni í að vinna,“ svaraði Viðar Örn Hafsteinsson þegar hann var spurður eftir leik út í þá staðreynd að Höttur hefði aðeins verið yfir í brot úr leiknum en samt unnið.

Hann hrósaði Fjölnismönnum fyrir þeirra leik. „Þeir voru góðir. Mirza var svakalegur á köflum og aðrir tikkuðu í kringum hann og Foreman. Einkum í fyrsta leikhluta svínhittu þeir og svo tók Mirza rispu í þriðja leikhluta.

Við vorum í vandræðum varnarlega, aldrei á flugi og ósáttir við okkur en ég er samt ánægður því við sýndum karakter og gæði við að klára þetta hér í lokin. Við hittum ágætlega en þegar við gerðum það ekki refsuðu þeir okkur í fráköstunum. Við hreyfðum boltann ágætlega á köflum en duttum niður á milli. Að lokum snérist þetta um eitt skot, Tim keyrði á körfuna.“

Liðin mætast öðru sinni í Grafarvogi á mánudagskvöld. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í úrslit gegn annað hvort Sindra eða Álftanesi um laust sæti í úrvalsdeild. „Ef einhver hélt þetta yrði auðvelt fyrir okkur þá var viðkomandi á villigötum. Við þurfum að halda einbeitingu, halda í það sem við gerðum vel og laga það sem miður fór. Það er verk okkar Einars (Árna Jóhannssonar, meðþjálfara) að finna leiðir til að auka snúninginn á okkur og hægja á Fjölnismönnum, sem gerðu virkilega vel hér í dag. Þetta verður hörkusería.“

Tim Guers var stigahæstur Hattar með 35 stig. Arturo Fernandez skoraði 22 og David Guardia 20. Hjá Fjölni skoruðu bæði Foreman og Mirza 32 stig.

Tim Guers sækir vítaskotin sem tryggðu Hetti sigur í kvöld.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar