Körfuknattleikur: Höttur kominn upp í úrvalsdeild

Höttur mun spila í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á næstu leiktíð. Þetta er niðurstaðan Körfuknattleikssambands Íslands í kjölfar samkomubanns til að stemma stigu við útbreiðslu kórónaveirunnar. Þjálfari Hattar segir skrýtið að taka við titlinum við þessar aðstæður en liðið verðskuldi úrvalsdeildarsætið eftir þrotlausa vinnu.

„Þetta er stórundarlegt. Ekki að við séum komnir upp heldur tilfinningin og aðdragandinn að þessu. Það er skrýtið að spila ekki síðasta leikinn heldur bíða eftir tölvupósti um hvort maður komist upp um deild.

Við höfum þó eitthvað til að gleðjast yfir núna. Ég tel að við höfum unnið vel fyrir þessu þótt það sé leiðinlegt að geta ekki klárað mótið,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Taka þurfti erfiða ákvörðun

Stjórn KKÍ fundaði í dag um lok Íslandsmótsins, en allir íþróttakappleikir voru blásnir af í byrjun vikunnar eftir að samkomubann tók gildi. Niðurstaða sambandsins er að blása af allar úrslitakeppnir en láta núverandi deildarstöðu gilda. Mörg stærstu félaganna hafa treyst á tekjur af úrslitakeppninni en Viðar segir að hún hafi engin áhrif á fjárhag Hattar.

Það þýðir að Höttur er deildarmeistari í fyrstu deild og tekur sæti Fjölnis í úrvalsdeildinni. Höttur átti tvo leiki eftir, annars vegar gegn Vestra á Ísafirði, hins vegar gegn Hamri í Hveragerðinni. Síðarnefnda leiksins var beðið með mikilli eftirvæntingu því við eðlilegar kringumstæður hefði hann ráðið hvort liðið færi upp um deild.

„Þetta er gríðarlega erfið ákvörðun fyrir sambandið og stjórnarfólk var ekki öfundsvert af hlutskipti sínu. Það þurfti hins vegar að taka einhverja ákvörðun og hún er ánægjuleg fyrir suma og leiðinleg fyrir aðra,“ segir Viðar. Aðspurður segir hann ekki ljóst hvort eða hvenær Höttur fái afhentan bikar fyrir að vinna deildina.

Erlendu leikmennirnir um kyrrt

Staða erlendra leikmanna er eitt af því sem hefur áhrif á ákvörðun KKÍ. Með Hetti hafa í vetur spilað fjórir erlendir leikmenn. Einn þeirra hugðist halda til síns heima í gær, en fékk ekki að millilenda í því landi hann hugði. Hann er því aftur á leið til Egilsstaða. Hinir erlendur leikmennirnir eru þar og stefna á að vera að sinni.

„Kannski eru Ísland og Egilsstaðir ekki slæmur staður til að vera á um þessar mundir. Þótt erfitt sé að vera fjarri fjölskyldunni þá búum við hér við mikil forréttindi og getum verið þakklát fyrir það sem við höfum, miðað við lýsingar sem maður hefur heyrt í gegnum tíðina,“ segir Viðar.

Engar æfingar eru hjá yngri flokkum þessa vikuna, en tilmæli voru gefin út um að fella þær niður til 23. mars þar til Almannavarnir gætu gefið út skýrari tilmæli um fyrirkomulag þeirra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.