Körfuknattleikur: Sigur á Þór Akureyri í fyrsta æfingaleik

Höttur vann Þór frá Akureyri 82-74 í fyrsta æfingaleik sínum fyrir komandi keppnistímabil í úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Þrír nýir leikmenn spiluðu þar með Hetti í fyrsta sinn.

Leikið var á Egilsstöðum og voru gestirnir, sem spila í 1. deildinni í vetur, yfir í hálfleik, 40-48. Höttur snéri leiknum sér í vil í þriðja leikhluta, var yfir efir hann 64-62 og vann sem fyrr segir 82-74.

Höttur teflir í vetur fram nýjum Bandaríkjamanni. Tim Guers er farinn frá félaginu eftir tveggja ára dvöl. Í hans stað er kominn Denotaye Buskey. Hann er 25 ára og getur leikið sem skotbakvörður eða leikstjórnandi.

Hann útskrifaðist úr Charleston Southern háskólanum vorið 2022 og spilaði síðasta vetur með Huima í næstefstu deildinni í Finnlandi. Þar skoraði hann 26,5 stig að meðaltali í leik, tók 4,5 fráköst og stal tveimur boltum að meðaltali í leik.

Þá fékk félagið til sín Gustav Suh-Jessen, 25 ára gamlan framherja frá Danmörku. Gustav var samherji Guers í háskólaboltanum en lék síðasta vetur með Horsens í í heimalandinu.

Þeir fóru báðir ágætlega af stað. Buskey skoraði 19 stig gegn Þór og stal 6 boltum en Gustav skoraði 12 stig. Þá má nefna að Matej Karlovic skoraði 17 stig og Nemanja Knezevic 15 stig auk þess að taka 11 fráköst.

Sæþór Elmar Kristjánsson, sem kom frá ÍR í sumar, spilaði einnig sinn fyrsta leik fyrir Hött. Þá fengu þeir Vignir Steinn Stefánsson og Viktor Óli Haraldsson sínar fyrstu mínútur með meistaraflokki.

Á móti hefur unglingalandsliðskonan Brynja Líf Júlíusdóttir skipt úr Hetti yfir í Tindastól á Sauðárkróki fyrir veturinn. Brynja Líf spilaði í sumar með U-16 ára landsliði Íslands á Norðurlandamótinu.

Keppni í úrvalsdeild karla hefst síðan 5. október.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.