Körfubolti: Aaron Moss aftur til Hattar
Úrvalsdeildarlið Hattar í körfuknattleik hefur fengið Bandaríkjamanninn Aaron Moss til liðs við sig en Moss spilaði með liðinu í fyrra. Landi hans Taylor Stafford yfir gefur félagið í staðinn.„Okkar mat að þessu sinni var að við þyrftum mann sem gæti dekkað fleiri stöðu, veitti okkur meiri fjölbreytni og væri sterkari í teignum.
Við vildum ekki taka neina áhættu. Moss stóð sig vel í fyrra og var til í að koma aftur. Þetta gekk hratt fyrir sig, hann kom austur í hádeginu í gær og æfði með liðinu í gærkvöldi,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Moss var einn besti leikmaður fyrstu deildarinnar í fyrra, var hæstur í stoðsendingum með 8,9 í leik en einnig gríðarlega öflugur skorari með 23,5 stig og 12,2 fráköst.
Höttur kaus hins vegar ekki að hafa Moss áfram og var samið við Taylor Stafford fyrir tímabilið. Stafford skoraði yfir 30 stig gegn Stjörnunni í fyrstu umferðinni síðastliðið fimmtudagskvöld.
Stafford verður með Hetti næstu tvo leiki, gegn ÍR á fimmtudagskvöld og Val eftir rúma viku. Aðeins má vera með einn erlendan leikmann inn á í einu svo Stafford og Moss munu eitthvað skiptast á. Næstu tveir leikir skipta Hött miklu máli en ÍR og Valur eru lið sem spáð er botnbaráttu með Egilsstaðaliðinu.
„Við gefum öllum leikmönnum tækifæri. Taylor er frábær sóknarmaður og góður drengur. Hann hefur lagt sitt af mörkum til liðsins og því er ekki auðvelt að taka ákvörðun um að skipta núna. Við teljum hins vegar að við þurfum annan mann sem henti betur inn í liðið og klúbbinn.“
Af öðrum leikmönnum Hattar er það að frétt að Andrée Michaelsson ætti að spila sinn fyrsta leik á fimmtudag en hann missti af Stjörnuleiknum vegna ökklameiðsla. Þá kemur Mirko Virjievic aftur úr banni.
Hreinn Gunnar Birgisson spilaði gegn Stjörnunni meiddur á ökkla og er tæpur. Nökkvi Jarl Óskarsson hefur glímt við bakmeiðsli. „Menn eru lemstraðir. Þeir geta spilað að hluta en ekki að fullu.“