Körfubolti: Einskær óheppni kostaði Hött sigurinn – Myndir

Kílógramm af óheppni og dass af villuvandræðum komu í veg fyrir að Höttur ynni annan leik sinn í röð þegar Grindavík kom í heimsókn í gærkvöldi. Gestirnir teljast sekir um að hafa stolið kökunni úr krús Hattar.


Eftir afar erfiða byrjun er að rætast úr Hattarliðinu. Sigur á Njarðvík gaf því trúverðugleika og sjálfstraust. Liðið hélt áfram á sömu braut í gær, spilaði grimma svæðisvörn og agaðan sóknarleik. Það er töluverð framför frá því fyrir áramót þegar sóknarleikurinn var ráðalaus og mikið um ótímabær skot.

Höttur var yfir 39-36 í hálfleik og þótt munurinn væri aldrei mikill var heimaliðið alltaf skrefi á undan. Í lok þriðja leikhluta var liðið tíu stigum yfir og frábær lokakarfa Mirko Virijevic skilaði átta stiga forskoti áður en hann var úti.

Hattarmenn voru samt komnir í mikil villuvandræði. Um miðjan fjórða leikhluta fékk Mirko sína fimmtu villu, nýkominn inn eftir að hafa tekinn út af þegar hann fékk þá fjórðu. Fleiri leikmenn Hattar voru í vandræðum en kláruðu þó venjulegan leiktíma.

Grindvíkingar tóku líka áhættu, til dæmis að taka Bandaríkjamanninn Charles Garcia út af. Þótt hann hafi skilað 18 stigum og 10 fráköstum er það vart það sem búist er við af manni sem ber höfuð og herðar yfir aðra á vellinum. Ítrekað voru Hattarmenn grimmari í fráköstunum og hann virtist ekki geta skorað körfur öðruvísi en helst leggja boltann ofan í. Skotin úr teignum geiguðu flest.

Þess í stað voru það eldri menn í gestaliðinu, fyrirliðinn Þorleifur Ólafsson og Ómar Örn Sævarsson sem drógu vagninn. Þorleifur kom Grindavík til dæmis yfir í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta með körfu úr erfiðri stöðu í teignum þegar rúm mínúta var eftir.

Hattarmenn svöruðu og lokamínútan var æsileg. Helgi Björn Einarsson misnotaði tvö vítaskot sem hefðu getað farið langt með að klára leikinn fyrir Hött en Jón Axel Guðmundsson nýtt sín hinu megin og kom Grindavík yfir.

Höttur lagði upp í kerfi og Tobin Carberry skoraði körfu þegar fimm sekúndur voru eftir og heimamenn fögnuðu sem leikurinn væri unninn.

Þeir slökuðu hins vegar á í vörninni, Grindvíkingar komu boltanum beint til Jóhanns Árna Ólafssonar úr innkasti og hann fékk víti. Hann nýtti seinna vítið og jafnaði í 69-69.

Hattarmenn negldu boltanum fram á Sigmar Hákonarson sem náði boltanum og keyrði að körfunni og náði skoti. Vald hans á boltanum var hins vegar takmarkað og skotið eftir því.

Kaka Hattar var í ofninum en í lokin vantaði lyftiduftið og hún féll saman í framlengingunni. Þorleifur reif Grindvíkinga í gang með þriggja stiga körfu, Helgi og Eysteinn Ævarsson fóru út af með fimm villur og að lokum var ein karfa frá Tobin það eina sem Höttur hafði fram að færa í framlengingunni.

Sigur hefði gefið Hetti líflínu, fyrst og fremst því með því hefðu þeir haldið aftur af Grindvíkingum og dregið þá niður í fallbaráttuna. ÍR vann í gær og fjarlægðin í öruggt sæti er orðin of mikil til að annað en kraftaverk í fleirtölu til að halda liðinu í deildinni. Nokkrir sigrar í seinni umferðinni myndu hins vegar tryggja liðinu virðingu þeirra körfuboltasérfræðinga sem í haust spurðu hvort Hattarliðið væri það lélegasta sem sést hefði í úrvalsdeildinni.

Myndir: Atli Berg Kárason

Karfa Hottur Umfg 20160114 0009 Wweb
Karfa Hottur Umfg 20160114 0016 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0023 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0048 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0051 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0074 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0119 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0125 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0163 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0177 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0203 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0212 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0239 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0240 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0266 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0269 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0271 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0282 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0297 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0361 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0398 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0420 Web
Karfa Hottur Umfg 20160114 0422 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar