Körfubolti: Höfum beðið eftir þessu síðan í vor

Höttur hefur leik í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld þegar Stjarnan kemur í heimsókn. Höttur hefur tvisvar áður spilað í úrvalsdeildinni en í bæði skiptin fallið rakleitt niður aftur. Þjálfarinn segir meiri breidd í hópnum en áður sem eigi að hjálpa. Á hana reynir strax því tveir lykilmenn verða fjarri í kvöld.

„Markmið okkar er að búa til stöðugt úrvalsdeildarlið. Það hefur ekki náðst en við teljum okkur vera nær því en nokkru sinni fyrr,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.

Hann hefur þjálfað liðið frá 2011 og var markmiðið þá sett. Liðið spilaði í úrvalsdeildinni veturinn 2015/16 en vann ekki leik fyrir áramót og féll því um vorið.

„Allir sem komu að liðinu þá hafa fengið meiri reynslu. Innan körfuknattleiksdeildarinnar er mikið til sami kjarni, nánast sama stjórn og sami þjálfari. Það hefur verið stöðugleiki innan sem utan vallar en þekkingin hefur aukist. Við höfum bætt okkur mikið sem félag.“

Fjórir nýir leikmenn

Þrátt fyrir að falla og missa tvo lykilmenn sigldi Hattarliðið örugglega í gegnum fyrstu deildina í fyrra. Liðið heldur öllum lykilmönnum sínum frá í fyrra nema að Taylor Stafford kemur í stað Aaron Moss í stöðu leikstjórnanda. Þetta verður fyrsta ár Stafford sem atvinnumaður en hann kemur beint úr bandaríska háskólaboltanum.

Þá hefur liðið fengið Andrée Michelsson, sem spilaði með Snæfelli í fyrra, Bergþór Ægi Ríkharðsson úr Fjölni, Sturlu Ævarsson úr Þór Akureyri auk þess sem Stefán Númi Stefánsson kemur heim eftir nám í Danmörku. Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar hefur hins vegar skipt yfir í Þór Þorlákshöfn og Fannar Veturliðason er hættur.

„Andrée var öflugur í liði Snæfells sem átti erfitt í fyrra. Við bindum vonir við að hann passi vel inn í hópinn og skili framlagi til liðsins. Bergþór er ungur og efnilegur og reynum að hjálpa til við að hann springi út.“

Þá er Viðar kominn með aðstoðarþjálfara, Odd Benediktsson, sem er alinn upp hjá Hamri en aðstoðaði við þjálfun kvennaliðs Stjörnunnar í fyrra. „Hann hjálpar okkur til við að hafa betri yfirsýn og pæla í hlutunum.“

Spáin skiptir engu

Höttur verður hins vegar án stóra mannsins, Mirko Virijevic í kvöld og Andrée. „Mirko var rekinn út úr húsi í síðasta leiknum í fyrra og er því í banni. André snéri sig á ökkla í æfingaleik. Aðrir eru klárið eða það verður tjaslað í þá.“

Nokkuð hefur verið um meiðsli á undirbúningstímabilinu hjá Hetti. „Það hefur gengið upp og niður hjá okkur í haust. Við höfum verið í meiri meiðslum en nokkru sinni fyrr. Það mun hins vegar gerast einhvern tíman í vetur að við getum ekki stillt upp okkar sterkasta liði og þannig verður það líka hjá öðrum liðum. Við teljum okkur vera með meiri breidd en áður og þurfum að sýna það.“

Í árlegri spá forráðamananna liðanna í deildinni var Hetti spáð næsta neðsta sætinu og falli. „Það var ekki að búast við öðru í spánni en hún skiptir okkur engu máli.“

Hann er því tilbúinn í leikinn sem hefst 19:15 í kvöld í íþróttahúsinu á Egilsstöðum, sem heita mun Brauð & co. höllin í tengslum við heimaleiki Hattar.

„Við hlökkum til. Við höfum beðið eftir þessu síðan í vor. Okkur langar að vera í efstu deild og erum spenntir fyrir verkefninu sem framundan er.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar