Körfubolti: Höttur áfram á sigurbraut
Höttur heldur áfram forskoti sínu á toppi fyrstu deildar karla í körfuknattleik eftir leikina helgarinnar. Höttur lagði Hamar í Hveragerði í gær 98-104 og FSu á Egilsstöðum á fimmtudag 94-73.
Höttur var skrefinu á undan nær allan leikinn í gær en munurinn var mjög lítill í síðasta leikhluta. Höttur tók leikhlé þegar þrjár mínútur voru eftir og staðan 89-90. Leikhléið skilaði sókn þar sem Hreinn Gunnar Birgisson skoraði þriggja stiga körfu, aðra af tveimur körfum sínum í leiknum.
Hamar minnkaði muninn aftur í 91-93 en körfur frá Ragnari Geraldi Albertssyni reyndust mikilvægar í lokin. Hann var líka sá sem helst gat gengið út í skotmenn Hamars en þeir Aaron Moss, Sigmar Hákonarson og Hreinn Gunnar Birgisson spiluðu allir síðasta leikhlutann á fjórum villum.
Mirko Virijevic átti stórleik, skoraði 36 stig og tók 10 fráköst. Moss skoraði 34 stig og tók 12 fráköst.
Moss náði hins vegar enn einni þrennunni á fimmtudagskvöldið gegn FSu, skoraði þá 30 stig, tók 17 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. Ragnar Gerald skoraði 31 stig í þeim leik. FSu var yfir í fyrsta leikhluta en var eftir hann kafsiglt af Hetti.
Höttur er með fjögurra stiga forskot á Fjölni og átta stig á Val á toppi deildarinnar. Valur á tvo leiki til góða á Hött. Samkvæmt dagskrá mætast liðin á Egilsstöðum eftir slétta viku en fyrst er bikarúrslitahelgi hjá Val.