Körfubolti: Höttur dróst gegn Þór Akureyri
Höttur mætir Þór Akureyri í 16 úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik. Dregið var í hádeginu í dag. Höttur sló ÍA út um helgina í 32ja liða úrslitum.Leikið verður á bilinu 4. – 6. nóvember og fékk Þór heimavallarréttinn.
Höttur lék gegn ÍA á Akranesi í 32ja liða úrslitunum um helgina og vann 78-85. Hattarliðið, sem er deild ofar, var nokkuð lengi í gang og var undir nær allan leikinn.
Segja má að það hafi ekki verið fyrr en þegar tvær mínútur voru eftir að Höttur náði forustu, liiðð komst yfir 76-78. Í kjölfarið fylgdi þriggja stiga karfa frá Aaron Moss sem gaf Hetti vald á leiknum.
Moss átti ágætan dag og skoraið 18 stig en stigahæstur var Mirko Virijevic með 22 stig auk þess að taka 16 fráköst.
Næsti leikur Hattar er gegn Val í úrvalsdeildinni í Brauð & Co. höllinni á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld. Hvorugt liðið hefur enn unnið leik í deildinni en þau komu saman upp úr fyrstu deildinni síðasta haust.