Körfubolti: Höttur vann ÍR og heldur enn í vonina – Myndir
Höttur á enn möguleika á að bjarga sér frá falli úr úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir 93-70 sigur á ÍR á Egilsstöðum í gærkvöldi. Þjálfarinn segir trú til staðar hjá liðinu á að það geti unnið fleiri leiki til að bjarga sér.
Höttur spilaði trúlega sinn besta leik í vetur í gærkvöldi en hafa verður í huga að mótspyrna gestanna var ekki burðug. Þeir voru reyndar tveimur stigum yfir eftir fyrsta leikhluta en spilamennska þeirra var aldrei upp á marga fiska.
„Dómararnir leyfðu dálítið af snertingum í fyrsta leikhluta þannig við klikkuðum á færi þar sem við hefðum viljað fá dæmdar villur. Við héldum samt trúnni og gerðum það sem beðið var um og héldum því áfram.“
Frábærir kaflar í byrjun annars og þriðja leikhluta lögðu grunninn að 20 stiga forustu Hattar. Liðið þurfti að vinna með 15 stigum eða meiru til að komst yfir ÍR í innbyrðisviðureignum sem ráða röð liða verði þau jöfn að stigum.
Höttur þarf að vinna að lágmarki tvo af þeim þremur leikjum sem eftir eru til að sleppa við fallið. „Þessi sigur þýðir að við erum áfram með í baráttunni. Ef við höldum áfram að spila svona og bæta okkur þá eigum við séns í hvaða lið sem er.
Við höfum aldrei misst trúna, það hefur aldrei orðið leiðinlegt hjá okkur. Það getur verið erfitt að tapa leik en menn hafa alltaf mætt einbeittir á æfingar og verið samstíga.
Með sigrunum hefur komið ný trú á verkefnið og það er að byggjast upp sjálfstraust innan hópsins.“
Tobin Carberry átti stórleik fyrir Hött, skoraði 42 stig, tók 14 fráköst og sendi 10 stoðsendingar. Mirko Stefán Virijevic skoraði 19 stig og hirti 15 fráköst.
Myndir: Atli Berg Kárason