Körfubolti: Þiggjum úrvalsdeildarsætið ef hægt er að panta það
Höttur leikur í kvöld sinn fyrsta heimaleik á tímabilinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik. Talsverðar breytingar hafa orðið á liðinu í vetur en stefnan er sett á úrslitakeppnina í vor.
„Við ætlum okkur að vera í baráttunni í vetur og eiga möguleika á að fara upp. Heimaleikjaréttur væri vel þeginn í úrslitakeppninni en við verðum að sjá hvernig allt spilast. Við getum verið mjög góðir ef allt smellur en við eigum mikið í land enn,“ segir þjálfarinn Viðar Örn Hafsteinsson.
Sigurvegari deildarinnar fer beint upp um deild en liðin í 2. – 5. sæti spila úrslitakeppni um annað laust sæti. Höttur féll úr úrvalsdeildinni eftir einn vetur í vor og Viðar segir langt í frá gefið að fara beint upp aftur.
„Við þiggjum að fara beint upp ef við getum pantað það einhvers staðar en til þess þarf mikið að gerast. Við þurfum að spila okkur vel saman, vera heppni með meiðsli og annað. Það er margt sem telur inn í.
Við ætlum klárlega að blanda okkur í toppbaráttuna því við getum unnið öll liðin í deildinni. En á leiðinni eru stórir leikir og innbyrðis viðureignir.“
Andstæðingur kvöldsins er FSu sem féll með Hetti í vor. Suðurlandsliðinu hefur ekki verið spáð góðu gengi enda hafa orðið á því talsverðar breytingar. „Liðið er samt með sterka leikmenn innanborðs. Ég held að það verði betra en menn hafa spáð,“ segir Viðar.
Nýr Kani
Hattarliðið er líka breytt. Eysteinn Bjarni Ævarsson spilar með Stjörnunni í úrvalsdeild og Tobin Carberry með Þór Þorlákshöfn. Hallmar Hallsson er farinn heim í Sindra og þeir Ásmundur Hrafn Magnússon og Benedikt Þorvaldur Guðgeirsson Hjarðar hafa einnig leitað á ný mið.
Ragnar Gerald Albertsson er kominn aftur eftir einn vetur á heimaslóðum í Keflavík og bakvörðurinn Bjartmar Halldórsson frá Hamri. Leikmenn úr unglingaflokki flytjast upp í liðið og svo er kominn nýr Bandaríkjamaður, bakvörðurinn Aaron Moss.
„Hann er líkamlega sterkur með skemmtilega eiginleika sem munu nýtast liðinu vel. Hann spilaði vel í fyrsta leik,“ segir Viðar.
Þá er ótalinn þjálfarinn sjálfur sem dregið hefur fram skóna að ný. „Skórnir fóru ekkert upp á hillu, þeir voru bara geymdir í Bólholtsbikarnum. Mig langaði að spila og er í fínu líkamlegu standi þannig séð,“ segir Viðar sem skoraði 14 stig gegn Fjölni á föstudagskvöld. Á hliðarlínunni verða Ívar Karl Hafliðason og Bjarki Ármann Oddsson til aðstoðar.
Sterkt að vinna Fjölni í fyrsta leik
Höttur vann Fjölni í fyrsta leik 94-96 í Grafarvogi á föstudag. Höttur náði góði forustu í fyrsta leikhluta en Fjölnismenn voru rétt búnir að stela sigrinum í fjórða leikhluta.
„Við vorum góðir á köflum miðað við að þetta var fyrsti leikur og við með marga nýja menn. Fjölnir komst yfir og var rétt búinn að vinna í lokin en við náðum að klára leikinn, sem mér finnst mjög sterkt því við töpuðum þó nokkrum leikjum í fyrra.“
Fljótt á litið má búast við að deildin skiptist í tvennt. Breiðablik, Hamar, FSu, Valur, Höttur og Fjölnir hafa öll nýlega verið í úrvalsdeildinni og eiga að hafa ágætis leikmannahóp, til dæmis styrkti Valur sig töluvert í sumar. Úrslit helgarinnar gefa til kynna að Vesti, Ármann og ÍA eigi erfitt uppdráttar þótt Viðar búist við að Skagamenn vinni á þegar á líður.
„Fjölni var spáð efsta sæti og því var mjög sterkt að vinna þá á þeirra heimavelli, einkum þar sem þeirra lið er nánast óbreytt frá í fyrra,“ segir Viðar.
Leikur Hattar og FSu hefst í íþróttahúsinu á Egilsstöðum klukkan 18:30.