Krakkarnir blandast vel saman í körfuboltanum
Hátt í 100 iðkendur æfa með Körfuknattleiksfélagi Fjarðabyggðar í vetur en félagið stendur fyrir körfuboltaæfingum í þremur þéttbýliskjörnum sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Formaður félagsins segir krakkana blandast vel saman hjá félaginu.„Í lok hverrar æfingar koma þau saman og segja: „Fjarða-, Fjarða-, Fjarðabyggð“ þannig þau finni strax að þau tilheyri liði,“ segir Bjarki Ármann Oddsson, formaður félagsins í viðtali við sjónvarpsþáttinn Að Austan á N4.
Félagið var stofnað árið 2016. Það stóð fyrst fyrir æfingum á Eskifirði og Reyðarfirði, í samstarfi við Val á síðarnefnda staðnum en í vetur eru í fyrsta sinn æfingar í Neskaupstað.
„Þetta er mikið púsluspil en reglan er að þjálfarnir búa í þeim byggðakjarna sem þeir þjálfa. Foreldrar eru síðan duglegir að keyra á milli á æfingar, það er opið að fara á milli,“ segir Bjarki.
Til að hrista hópinn enn betur saman eru haldin minni mót þar sem iðkendur félagsins spila. Þeim er síðan blandað saman þvert á búsetu þegar farið er í stærri mót.
„Þessir krakkar hafa alist upp við samæfingar í yngri flokkum í fótbolta og þekkjast vel innbyrðis. Það þarf ekki nema tvo vini sem þekkjast til að draga aðra með,“ segir Bjarki.
Fyrir í Fjarðabyggð eru rótgrónar íþróttagreinar, einkum blak og fótbolta, en Bjarki segir að vel hafi verið tekið í tilkomu körfuboltans. „Mér finnst gott að hafa mikið í boði þannig að krakkarnir geti valið. Ég held það hafi líka verið eftirspurn eftir einhverju nýju. Kannski er körfuboltinn spennandi því hann er nýr, svo hverfur kannski sjarminn.“