Krefjast þess að KSÍ biðjist afsökunar

Knattspyrnudeild Hugins Seyðisfirði hefur farið fram á afsökunarbeiðni frá Knattspyrnusambandi Íslands vegna þess hvernig það hélt á málum í umdeildum leik Hugins og Völsungs í annarri deild karla í knattspyrnu. Deildin hyggst hins vegar ekki fara lengra með málið.

Í yfirlýsingu frá Hugins frá í gær er farið yfir málið sem hófst þegar liðin mættust á Seyðisfjarðarvelli um miðjan ágúst. Undir lok leiksins var leikmanni Völsungs ranglega vikið af velli með rautt spjald.

Að höfðu samráði við starfsmenn KSÍ var rauða spjaldið leiðrétt áður en dómari leiksins skilaði endanlegri útgáfu leikskýrslu. Völsungur kærði framkvæmd leiksins og fyrir rúmri viku ákvað áfrýjunardómstóll KSÍ að leikurinn skyldi endurtekinn þar sem ekki hefði verið rétt gengið frá leikskýrslu.

Það átti að gerast á miðvikudaginn í síðustu viku. Huginsmenn hengdu sig á úrskurðarorð um að leikurinn skyldi endurtekinn á Seyðisfjarðarvelli en Völsungar mættu á Fellavöll þangað sem mótastjórn KSÍ hafði fært leikinn vegna vallaraðstæðna á Seyðisfirði. Í yfirlýsingunni er áréttuð sú skoðun Hugins að til þess hafi sambandið skort lagastoð.

Starfsmenn axli ábyrgð á mistökum

Þráðurinn í yfirlýsingunni frá í gær er um hvernig mistök starfsmanna KSÍ, fyrst dómara, síðan þeirra sem ráðlögðu honum um frágang leikskýrslu og loks tóku ákvörðun um að færa leikinn hafi bitnað á Huginn.

„KSÍ er ekkert annað en liðin í landinu. Við getum haft áhrif á stjórnir og formenn en við getum ekki kosið okkur starfsfólk á skrifstofu KSÍ. Því er það okkur mikilvægt að þegar starfsfólk sambandsins er uppvíst að því að hafa tekið rangar ákvarðanir sem brjóta gegn reglum og reglugerðum KSÍ, sem félögin í landinu hafa samþykkt, að á því sé tekið.

Afleiðingar vegna mistaka starfsmanna mega ekki einungis beinast gegn þeim aðildarfélögum sem eru svo óheppin að lenda í slíkri atburðarrás eins og Huginn í þessu einstæða máli,“ segir í yfirlýsingunni.

Segja KSÍ hafa reynt að bjarga eigin andliti

„Okkur finnst einnig miður að KSÍ hafi ekki séð sér fært að koma fram opinberlega og viðurkenna sín mistök í þessu máli. Það er líkt og að öll samskipti þeirra við fjölmiðla hafi fremur snúist um að bjarga eigin andliti, starfsmanna sinna og skrifstofu.

Framkvæmdastjóri KSÍ minntist á það í sjónvarpsfréttum að með orðum og útskýringum forráðamanna Hugins væri „verið að fara í manninn en ekki boltann”. Það hefur verið afar erfitt fyrir Huginn að nálgast „boltann” í þessu máli þar sem varðmenn valdsins hafa staðið þétt saman til þess að hindra leiðina að „boltanum”. Það finnst okkur frekar lítilmannlegt og eingöngu gert til að verja eigin mistök.

Er það upplifun okkar að KSÍ hafi alvarlega vegið að heiðri og orðspori Hugins og er stjórn Hugins því skylt að verja félagið fyrir hönd leikmanna, stuðningsmanna og allra þeirra sem gengið hafa veginn með félaginu allt frá stofnun þess. Við óskum því eftir að KSÍ biðji félagið opinberlegrar afsökunar á sinni framkomu og röð mistaka af hálfu sambandsins í málinu öllu.

Stjórn Hugins hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu en telur mikilvægt fyrir leikmenn, stuðningsfólk og íslenska knattspyrnu í heild að KSÍ dragi lærdóm af því sem á undan er gengið . Byggja þarf traust að nýju á milli aðila og teljum við þar af leiðandi farsælast að KSÍ axli ábyrgð á sínu hlutverki í þessu máli.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.