Kristín Embla glímudrottning og íþróttamaður UÍA

Kristín Embla Guðjónsdóttir úr Val á Reyðarfirði varð á laugardag glímudrottning Íslands í þriðja sinn. Þá var hún einnig valin íþróttamaður UÍA á þingi sambandsins í Neskaupstað í gær.

Glímufólk úr Val keppir undir merkjum UÍA á landsvísu. Kristín Embla og systir hennar Elín Eik voru keppendur UÍA í kvennaflokki Íslandsglímunnar þar sem glímt var um Freyjumenið. Glímt var á Akureyri.

Sem fyrr segir vann Kristín Embla Freyjumenið en Elín Eik varð þriðja. Kristín Embla fékk einnig Rósina, viðurkenningu sem veitt er fyrir fegurð í glímum.

Helgin var ekki búin hjá Kristínu Emblu því hún var valinn íþróttamaður UÍA á þingi sambandsins í Neskaupstað í gær. Aðalheiður Vilbergsdóttir, formaður Vals, tók við verðlaununum fyrir hönd Kristínar.

Í karlaflokki um Grettisbeltið kepptu fjórir frá UÍA, þeir Þórður Páll Ólafsson, Hákon Gunnarsson, Sebastían Andri Kjartansson og Snjólfur Björgvinsson.

Í hópinn vantaði ríkjandi meistara Ásmund Hálfdán Ásmundsson. Fjarvera hans þýddi að nýr glímukonungur var krýndur, Einar Eyþórsson úr Mývetningin. Hákon varð annar en Þórður Páll þriðji.

Auk keppendanna átti UÍA tvo dómara, þau Atla Má Sigmarsson og Evu Dögg Jóhannsdóttur.

Mynd: Stefanía Hrund Guðmundsdóttir


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar