Kristófer Páll: Vorum með plan um að skora fullt af mörkum

Kristófer Páll Viðarsson var hetja Leiknis Fáskrúðsfirði þegar hann skoraði fjögur mörk í 2-7 sigri á HK í dag sem bjargaði liðinu frá falli í aðra deild. Þangað fer Huginn í staðinn.


Fyrir leikinn þurfti Leiknir að snúa við sjö marka forskoti Hugins til að halda sér í deildinni. Seyðfirðingar töpuðu 4-1 á Selfossi á sama tíma en mörkin sem skiptu sköpum voru skoruð á síðustu mínútu venjulegs leiktíma á hvorum stað.

Kristófer Páll var þá þegar búinn að skora þrjú mörk þegar dæmt var víti. „Ég hljóp beint að boltanum þegar var flautað því ég vissi að ég ætti að taka vítið. Ég ákveð alltaf fyrir leiki hvert ég ætla að skjóta. Markvörðurinn var í boltanum en skotið var nógu fast til að hann fór inn,“ sagði Kristófer í samtali við Austurfrétt í kvöld.

Hann kom Leikni yfir strax á 17. mínútu en HK-ingar jöfnuðu fljótt. Aftur komust Leiknismenn yfir en urðu fyrir því óláni að skora sjálfsmark á síðustu mínútu fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik skoruðu Fáskrúðsfirðingar fimm, þar af Kristófer þau þrjú síðustu.

„Þegar við byrjuðum leikinn vorum við með plan um að skora mikið af mörkum. Þeir jöfnuðu fyrir leikhlé en við komum brjálaðir út í seinni hálfleikinn, ákveðnir í að rústa þeim. Einhvern vegin gekk allt upp inni í teignum.“

Þegar tíu mínútur eftir þurfti enn tveggja marka sveiflu milli Hugins og Leiknis. Þær eru í þoku í huga Fáskrúðsfirðinga.

„Ég var til staðar á vellinum en hausinn á mér var ekki til staðar. Ég man varla eftir þessum mínútum. Þegar ég skoraði hafði ég á tilfinningunni að þetta væri komið en ég var ekki viss. Ég náði varla andanum þegar ég var að hlaupa til baka.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.