Kynna breytta heilsurækt á Reyðarfirði á sunnudag

Nýtt nafn, dagskrá og eigendahópur verða kynntir til leiks í líkamsræktarstöðinni Ými á Reyðarfirði á sunnudag. Nýir eigendur segjast stefna á að halda áfram að efla stöðina og samfélagið sem myndast hefur í kringum hana.

Það eru þrenn hjón: Bersteinn Ingólfsson, Anna Steinunn Árnadóttir, Katrín Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Ólafsson, Helgi Laxdal Helgason og Laufey Frímannsdóttir sem tóku við stöðinni í byrjun október. Nú er komið að því að þau geri það formlega og nýtt nafn, merki og dagskrá verða kynnt á sunnudag.

Eiríkur Þorri Einarsson stofnaði crossfit-stöðina Ými árið 2019. „Hann á alla uppbyggingu þar til núna skuldlaust. Við og samfélagið hér erum honum ævinlega þakklát,“ segir Bergsteinn.

Starfsemin fékk inni í skemmu niðri við höfnina á Reyðarfirði. Nýju eigendurnir voru meðal fyrstu iðkendurna sem hjálpuðust að við að standsetja húsnæðið. „Það var steinull á veggjum og allt frekar hrátt hérna fyrst. Síðan kom gólfið og fólk tók þátt í að gera þetta fínna,“ rifjar Katrín upp.

Halda áfram að þróa æfingarnar


Þróunin hefur líka verið frá hreinræktuðu crossfiti yfir í fjölbreyttari æfingar, þótt æfingakerfi crossfit sé grunnurinn. Þar eru einnig þrektímar og námskeið í tabata, svo dæmi séu nefnd.

Smá saman hefur fjölgað í iðkendahópnum sem nýverið í gegnum 90 manna múrinn. Nýju eigendurnir stefna á að fjölga þeim enn frekar og ætla til þess að vera með sérstök byrjendanámskeið. Sjö þjálfarar starfa við stöðina. „Fólk er stundum hrætt við hugtakið crossfit. Það upplifir byrjendanámskeið sem inntökupróf, sem það er alls ekki,“ segir Bergsteinn.

„Við viljum vera með námskeið til að efla fólk í þeim æfingum sem helst er hætta á meiðslum í,“ bætir Helgi við. „Við bætum tveimur tímum á viku við stundatöfluna til að auka fjölbreytnina þannig hún verður þéttskipuð. Það eiga allir að geta gengið hér inn og gert æfingar sem henta þeim,“ segir Katrín.

Sniðið að fólki í vaktavinnu


Í stöðinni hefur verið boðið að vera með áskrift að lyklum þannig iðkendur geti farið í hana á öllum tímum sólarhringsins. Þá eru skipulagðir tímar þannig þeir séu í boði á mismunandi tímum enda vinnur fjöldi fólks á Reyðarfirði vaktavinnu. Þannig eru tímar klukkan sex að morgni ætlaðir dagvinnufólki, auk þess sem tímar eru í hádeginu og seinni partinn. „Við erum með 2-3 fasta tíma á dag og stefnum á að þeir verði 3-4,“ segir Katrín.

Hún hefur einnig verið með æfingar fyrir börn í 4. – 10. bekk í stöðinni. „Þetta eru einfaldar crossfit-æfingar, þrekþjálfun og kennsla á réttri tækni við lyftingar, eitthvað sem börnin búa að alla ævi,“ segir Katrín.

Inni í stundatöflunni er einnig stefnt að annars konar námskeiðum, eins og í ólympískum lyftingum. Að auki er bardagafélagið Icelandic Combat Arts með aðstöðu í húsinu fyrir sína starfsemi.

Styrkja samfélagið


En það eru ekki bara æfingarnar sem skipta máli heldur samfélag iðkendanna. „Fegurðin við stöðina er í samfélaginu. Þarna kemur fólk saman og þarf að leggja frá sér símann meðan það æfir. Við í eigendahópnum kynntumst hér og höfum eignast fleiri góða vini. Það er vel þekkt að stöðvar eins og þessi hafa eflt samfélagið þegar þær hafa opnað, vítt og breitt um landið,“ segir Bergsteinn.

Opnunarhófið verður klukkan 13:00 á sunnudag og eftir stutt samtal verður opin æfing.

Aðalsteinn, Katrín, Bergsteinn, Anna Steinunn, Laufey og Helgi. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar