Orkumálinn 2024

Leikir helgarinnar: Markaleikur í Fjarðabyggðarhöllinni

Austfirsku knattspyrnuliðin léku sína fyrstu deildarleiki um helgina. Karlaliðin léku öll á útivelli og tókst engu þeirra að næla í þrjú stig en Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir hófu leik í 2. deild kvenna með sigri á Fram.

Stúlkurnar léku í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Staðan var 1-1 eftir 12 mínútur og þannig var staðan í leikhléi. Á 54. mínútu var markverði gestanna vikið af velli með rautt spjald, en þrátt fyrir það komust Framarar yfir á 74. mínútu. Eftir þetta brustu allar flóðgáttir, heimstúlkur skoruðu 3 mörk í röð og bættu síðan við því 5. í lokin eftir að Fram hafði minnkað muninn. Lokatölur því 5-3. Ýmislegt gekk á undir lokin, viðbótarleiktími var nærri 10 mínútur og þjálfari og aðstoðarþjálfari Fram voru báðir spjaldaðir í leikslok, sá síðar taldi með því rauða.

Hin 16 ára gamla Freyja Karín Þorvarðardóttir fór á kostum í leiknum og skoraði þrennu en Adna Mesetovic skoraði hin mörkin tvö. Athygli vakti að hin kornunga Björg Gunnlaugsdóttir lék síðasta hálftímann, en hana vantar enn viku í 14 ára afmælisdaginn.

Fjarðaliðin lágu á útivelli

Segja má að stúlkurnar hafi hefnt ófara karlaliðs Leiknis sem mátti þola 0-3 ósigur gegn Fram í 1. umferð næstefstu deildar á laugardag. Leiknismenn sáu lítt til sólar gegn sprækum Frömurum sem höfðu tögld og haldir allan leikinn. Á 71. mínútu fékk Jesus Meneses, leikmaður Leiknis, að líta rautt spjald, að því er virtist eftir að aðstoðardómari taldi hann hafa sýnt sér fingurinn (löngutöng). Myndir af atvikinu, meðal annars frá ljósmyndara fotbolti.net, sýna hins vegar greinilega að leikmaðurinn lyfti vísifingri og dómurinn því líkast til nokkuð harður.

Lið Fjarðabyggðar sótti Hauka heim í Hafnarfjörð í 2. deild karla. Urðu fjarðamenn að sætta sig við 2-1 tap eftir að hafa náð að komast yfir í leiknum. Mark Fjarðabyggðar skoraði Rubén Lozano Ibancos.

Jafntefli í 3. deildinni

Lið Einherja sótti 1 stig í Kópavog, gegn liði Augnabliks, í fyrsta leik liðsins í 3. deild karla í ár. Einherjamenn voru 2-0 undir í hálfleik en náðu að jafna leikinn í síðari hálfleik og þar við sat. Todor Hristov og Recoe Martin skoruðu mörk Vopnfirðinga í leiknum.

Á sama tíma náði Höttur/Huginn í sömu úrslit á Sauðárkróki, gegn Tindastólsmönnum, í fjörlegum leik. Höttur/Huginn náði forystu í leiknum áður en heimamenn skoruðu tvívegis. Ramiro David De Lillo skoraði síðan sitt annað mark og jafnaði metin um 10 mínútum fyrir leikslok. Ramiro fer vel af stað, en hann skoraði einnig í bikarsigri gegn Fjarðabyggð á dögunum.

Mynd: Adna Mesetovic skoraði tvö mörk um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.