Leikir helgarinnar: Stórsigur hjá Fjarðabyggðarpiltum og Leiknir með fyrsta sigurinn

Leiknismenn náðu í góðan útisigur á Grenivík og Fjarðabyggð fór létt með gestina úr Garði. Það var markaregn í 3. deildinni sem og á Vilhjálmsvelli hjá stúlkunum, en Austanliðin riðu ekki feitum hesti frá þeim viðureignum.

Leiknismenn skelltu sér norður í land á föstudag og höfðu sigur gegn Magna á Grenivík 0-2 í Lengjudeild karla. Arkadiusz Jan Grzelak skoraði bæði mörk Fáskrúðsfirðinga, hið fyrra úr vítaspyrnu á 15. mínútu en það síðara á 58. mínútu. Þetta var fyrsti sigur Leiknismanna í deildinni í ár og með sigrinum lyfti liðið sér upp í 7. sæti deildarinnar eftir þrjár umferðir.

Týndi sonurinn með tvö
Í 2. deild karla tók Fjarðabyggð á móti Víði úr Garði á laugardag. Lítil gestrisni var sýnd og enduðu leikar 6-1. Nikola Kristinn Stojanovic skoraði tvö mörk en Jose Antonio Fernandez, Filip Marcin Sakaluk, Faouzi Taieb Benabbas og Vice Kendes skoruðu eitt mark hver. Nikola Kristinn kom á láni frá Þór á Akureyri fyrir skemmstu og var ekki lengi að stimpla sig inn, en hann lék með Fjarðabyggð áður en hann gekk til liðs við Þór fyrir þetta tímabil. Fjarðabyggð hefur nú skorað 10 mörk í síðustu tveimur leikjum og situr í þriðja sæti deildarinnar með 6 stig.

Slæmt tap hjá stelpunum
Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir tók á móti HK í 2. deild kvenna á Vilhjálmsvelli á sunnudag, en bæði lið höfðu unnið báða sína leiki áður en kom að þessum. Niðurstaðan var 0-4 sigur gestanna í leik þar sem lokatölur gefa ef til vill ekki rétta mynd af gangi leiksins. Staðan var 0-1 lengst af og heimastúlkur áttu gott færi til þess að jafna leikinn en Shakira Duncan skaut í stöng eftir frábæra rispu inn á teiginn. Gestirnir skoruðu hins vegar þrjú mörk á síðustu fimm mínútum leiksins og þar við sat. Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir sitja í fjórða sæti deildarinnar með 6 stig.

Erfiður dagur í 3. deild
Í 3. deild karla tók Einherji á móti Reyni Sandgerði á laugardag og máttu sætta sig við 2-3 tap á heimavelli. Todor Hristov og Georgi Ivanov skoruðu mörk Vopnfirðinga, sem komust tvívegis yfir í leiknum.

Á sama tíma tapaði Höttur/Huginn, einnig í miklum markaleik, fyrir Augnbliki í Kópavogi, en leikar þar enduðu 4-3. Ramiro David De Lillo, Sæbjörn Guðlaugsson og Eiríkur Þór Bjarkason skoruðu mörk Hattar/Hugins, en þau komu öll í síðari hálfleik.

Einherji og Höttur/Huginn verma tíunda og ellefta sæti deildarinnar, hvort lið með eitt stig að loknum þremur umferðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar