Leiknir B Launaflsmeistari eftir dramatískan sigur gegn Spyrni

Í gærkvöldi fór fram úrslitaleikur Launaflsbikarsins eða utandeildarinnar eins og keppnin er gjarnan kölluð.



Þar mættust Leiknir B frá Fáskrúðsfirði, sem hafði slegið Einherja út í undanúrslitum og Spyrnir frá Egilsstöðum, en þeir sigruðu BN í vítaspyrnukeppni í hinum undanúrsltaleiknum.

 

 


Jafnræði í fyrri hálfleik

Leikurinn var nokkuð vel spilaður miðað við utandeildarleik en bæði lið hafa innanborðs leikmenn sem eiga að baki hundruði KSÍ leikja og voru því margir í ágætu standi og með fínan bolta eins og sagt er.

Það var Borgfirðingurinn og Hattar-goðsögnin Stefán Eyjólfsson sem að braut ísinn með gullfallegu marki um miðjan fyrri hálfleik en Björgvin Snær Ólafsson markmaður Leiknis B kom engum vörnum við föstu skoti Stefáns af 25 metrum.

Þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik kom hár bolti inná teig Spyrnis eftir fast leikatriði sem þeim tókst ekki að hreinsa og þar var mættur Tadas Jocys sem ýtti boltanum yfir línuna.

 


Dramatískur seinni hálfleikur

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, jafnræði ríkti á meðal liðanna og hefði ekki verið skynsamlegt að leggja pening á annaðhvort liðið í stöðunni 1-1. Það var svo Þórarinn Máni Borgþórsson sem kom Spyrni yfir með fallegu marki úr aukaspyrnu, en hann hefur verið einn albesti leikmaður utandeildarinnar í sumar.

Leiknismenn höfðu verið ógnandi í föstum leikatriðum allan leikinn og var það eftir hornspyrnu sem að Tadas jafnaði leikinn með ágætu skallamarki, staðan 2-2 og ekki mikið eftir af leiknum.

Áhorfendur voru því farnir að búa sig undir framlengingu þegar að Leiknir B fékk aukaspyrnu djúpt úti á vinstri kanti. Þar mætti áðurnefndur Tadas til að taka hana, en hvort sem um skot eða sendingu var að ræða, endaði boltinn að minnsta kosti í markinu þar sem að hann sveif yfir fremstu varnarmenn Spyrnis og í netið. Kannski ekki fallegasta aukaspyrnumark sem að sést hefur á Fellavelli en það taldi jafn mikið og önnur og sá til þess að Leiknir B er Launaflsmeistari 2016.

 


Tvö bestu liðin

Leiknir B er vel komið að sigrinum í ár en þarna mættust vafalaust tvö bestu lið sumarsins að mati fréttaritara og myndu nokkrir leikmenn í báðum liðum spjara sig ágætlega í sterkari deild en utandeildinni.

Í ár tóku sjö lið þátt í Launaflsbikarnum, en þau voru: UMFB, Spyrnir, Leiknir B, Wintris (ekki þó frá Hrafnabjörgum), Einherji, Valur og BN.

Þar með lýkur knattspyrnusumrinu 2016 hjá mörgum, sem að hófst með leik Íslands og Portúgals og lauk með meistaraleik Leiknis B og Spyrnis.

Frétt: Dagur Skírnir Óðinsson. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar