Leiknir hampaði Launaflsbikarnum

Leiknir Fáskrúðsfirði fór með sigur af hólmi í bikarkeppni UÍA og Launafls, annað árið í röð en liðið lagði Einherja í úrslitaleik í síðustu viku 4-1.


Leiknir hafði tök á leiknum frá fyrstu mínútu og má heita merkilegt að það hafi tekið liðið 26. mínútur að skora. Þar var að verki Fannar Bjarki Pétursson með góðu skoti úr D-boganum.

Einherjamenn komust lítið fram yfir miðju en voru uppteknir upp við eigið mark og hreinsuðu tvisvar frá á línu. Stefán Alex kom Leikni hins vegar í 2-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks með glæsilegu marki. Hann tók á móti boltanum við hægra vítateigshorni, lét hann skoppa einu inni á lærinu áður en hann sveiflaði fætinum og sendi boltann efst upp í hægra hornið.

Baldur Smári Elvarsson skoraði þriðja mark Leiknis á 70. mínútu eftir góðan undirbúning og Ásgeir Páll Magnússon það fjórða á 81. mínútu beint úr aukaspyrnu við D-bogann.

Einherji komst aðeins inn í leikinn í seinni hálfleik. Þess vegna var það verðskuldað að Viktor Alexander skoraði mark fimm mínútum fyrir leikslok með frábæru skoti utan teigs eftir góða sókn upp hægri kantinn.

Stórsigur Einherja

Af úrslitum helgarinnar er það að A-lið Einherja vann sinn fyrsta sigur í þriðju deildinni síðan í lok júní og hafði leikið sex leiki í röð án sigurs. Einherji burstaði Berserki á Vopnafjarðarvelli 9-2. Todor Hristov skoraði þrjú mörk, Aleksandar Kirilov tvö og þeir Bjartur Aðalbjörnsson, Sverrir Hrafn Friðriksson, Viktor Már Heiðarsson og Viktor Daði Sævaldsson sitt markið hver.

Í fyrstu deildinni tapaði A-lið Leiknis 0-2 á heimavelli fyrir Selfossi. Liðið þarf að vinna alla fjóra leikina sem það á eftir til að forðast fall.

Aukin spenna hljóp í fallbaráttu annarrar deildar karla um helgina þegar KV vann Huginn 3-1. Blazo Lalevic skoraði mark Hugins sem var tveimur mönnum fleira í lokin eftir að heimamenn höfðu náð sér í tvö rauð spjöld. Með ósigrinum minnkuðu möguleikar Hugins á að fara upp um deild verulega.

KV er enn í fallsæti en aðeins stigi frá Hetti og Fjarðabyggð. Höttur tapaði 0-2 fyrir Njarðvík en Fjarðabyggð gerði 2-2 jafntefli við Völsung. Fjarðabyggð komst yfir á 12. mínútu með marki Milo Vasiljevic.

Korteri síðar fékk einn Húsvíkinga rautt spjald en samt tókst þeim að komast yfir. Zoran Vujovic jafnaði á 79. mínútu, fimm mínútum eftir að annað mark Völsungs. Gestirnir fengu síðan vítaspyrnu fimm mínútum fyrir leikslok en Milos Peric varði hana. Jóhann Ragnar Benediktsson fékk sitt annað gula spjald fyrir brotið en Fjarðabyggð hélt og og náði stigi sem getur reynst dýrmætt.

Álftanes heimsótti kvennaliðin í annarri deildinni og byrjaði á 0-1 sigri á Einherja á Vopnafirði í leik þar sem Diliyan Kolev, þjálfari Einherja, fékk rauða spjaldið tíu mínútum fyrir leikslok. Álftanes vann líka Fjaðrabyggð/Hött/Leikni á Norðfirði í gær, 1-2. Elísabet Eir Hjálmarsdóttir skoraði fyrsta mark leiksins fyrir heimaliði.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar