Leiknir og Fjarðabyggð í viðræður um sameiningu

Stjórnir Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar og knattspyrnudeildar Leiknis Fáskrúðsfirði auk yngri flokka Fjarðabyggðar hafa ákveðið að hefja viðræður um að senda sameiginlegt lið til þátttöku í Íslandsmótinu í knattspyrnu á næsta ári. Leiknir hefur sagt upp samningi við þjálfara meistaraflokks vegna þessa.

Þetta staðfestir Magnús Ásgrímsson, formaður knattspyrnudeildar Leiknis, í samtali við Austurfrétt. „Það er búið að ákveða að skoða þetta eins vel og hægt er og setja stefnuna á þetta,“ segir hann.

Búið er að segja Brynjari Skúlasyni, þjálfara karlaliðs Leiknis, upp störfum. Magnús segir það formsatriði vegna viðræðnanna. „Það var uppsagnarákvæði í samningi hans í haust. Við gátum ekki farið með bundnar hendur inn í viðræðurnar.

Hann er ekkert út úr myndinni sem þjálfari sameinaðs liðs, það verður ný stjórn sem ræður þjálfara. Ef af sameiningunni verður ekki munum við tala aftur við hann. Ég veit ekki annað en þetta hafi verið gert í bróðerni,“ segir Magnús.

Viðræðurnar eru margþættar, en inn í þær blandast meðal annars yngri flokkar félaganna og stjórnir þeirra félaga sem Knattspyrnufélag Fjarðabyggðar er sett saman úr. Byrjað er að skoða málin þar.

Ýmislegt þarf að útfæra í viðræðunum. Til dæmis þarf að ákveða hvort stofnað sent verður sameiginlegt lið, líkt og Fjarðabyggð er dæmi um, eða stofnað alveg nýtt félag. Þetta getur haft áhrif á í hvaða deild liðið keppir. Fjarðabyggð féll úr annarri deild í sumar en Leiknir hélt sæti sínu. Magnús segir stefnt á að sameiginlegt lið taki sæti Leiknis en ræða þurfi við bæði Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem og Knattspyrnusamband Íslands hvort og hvernig það verði gert.

Horft er til þess að samstarfið verið víðtækara heldur en bara í meistaraflokkunum en stefnt er að því að búinn verði til nýr rammi um knattspyrnuiðkun í sveitarfélaginu Fjarðabyggð. Með sameiningu meistaraflokkanna er vonast til að spara megi fé sem nýtist meðal annars í yngri flokkana. Afraksturinn verði meiri gæði, betra utanumhald og að íbúar standi sameinaðir að baki nýju félagi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.