Leiknir sendi Hött út úr bikarkeppninni

Þriðju deildar lið Leiknis sló annarrar deildar lið Hattar út úr bikarkeppni karla í gær í leik sem endaði í vítaspyrnukeppni. Spyrnir vann Einherja.

 

hottur_leiknir1_web.jpgErfitt var að sjá deildarmuninn á Leikni og Hetti því Leiknismenn gáfu heimamönnum ekkert eftir. Markahrókurinn síungi Vilberg Marinó Jónasson kom gestunum í 1-0 en Jörgen Sveinn Þorvarðarson jafnaði fyrir Hött og þannig var staðan að loknum venjulegum leiktíma. Fátt markvert gerðist í framlengingu og því kom til vítaspyrnukeppni.

Þar misnotaði Jörgen Sveinn þriðju spyrnu Hattarmanna á meðan Leiknismenn skoruðu úr öllum sínum spyrnum af miklu öryggi. Það var markvörður gestanna ‚Óðinn Ómarsson, sem tryggði þeim sigurinn með því að skora úr síðustu spyrnu þeirra.

Lið Spyrnis er ekki skráð til leiks í 3. deild í ár frekar en í fyrra en þá lét liðið sér þátttöku í bikarkeppni UÍA nægja og hafði þar sigur. Í ár er liðið hins vegar skráð til leiks í bikarkeppni KSÍ og byrjaði vel með því að leggja 3. deildar lið Einherja að velli 2-0 .

Spyrnismenn byrjuðu betur og komust yfir strax á 10. mínútu. Ingimar Jóhannsson setti þá góða pressu á varnarmenn Einherja og knötturinn endaði í netinu en erfitt var að sjá hvort um sjálfsmark var að ræða eða hvort Ingimar kom boltanum í markið.

Á 30. mínútu skoraði Hafliði Bjarki Magnússon laglegt mark eftir að hann slapp einn í gegn eftir góða stungusendingu frá Birni Einarssyni framherja Spyrnis. Björn þjálfaði lið Hattar í körfubolta í vetur og er ekki þekktur fyrir afrek á knattspyrnusviðinu en stóð fyrir sínu í framlínu Spyrnis lengst af leiknum í dag.

Eftir þetta dró ekki til tíðinda fyrr en á 70. mínútu þegar dæmd var vítaspyrna á heimamenn. Það var markvörðurinn Geisli Hreinsson sem braut af sér en bætti sannarlega fyrir með því að verja slaka spyrnu frá Ivo Bengun. Á 78. mínútu fékk svo Helgi Már Jónsson varnarmaður gestanna að líta sitt annað gula spjald og það rauða með. Eftir þetta var endurkoma Einherja úr sögunni og Spyrnir fagnaði öruggum sigri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar