Leiknir í undanúrslit Lengjubikarsins
Leiknismenn tryggðu sér um helgina sæti í undanúrslitum B deildar Lengjubikars karla þegar liðið vann Magna 4-3 í Fjarðabyggðarhöllinni. Leikmenn Fjarðabyggðar voru skildir eftir þar sem flugvél Flugfélags Íslands var of þung þegar hún átti að fara frá Reykjavíkurflugvelli á föstudag.
Almar Daði Jónsson skoraði þrennu fyrir Leikni sem var 4-1 yfir í hálfleik. Leiknismenn fóru þar með upp fyrir Magna og unnu sinn riðil. Leiknismenn mæta sterku liði KV úr Vesturbænum á Akureyri á fimmtudag í undanúrslitum.
Fjarðabyggð átti einnig möguleika á að komast áfram en tapaði 3-7 fyrir Dalvík/Reyni. Þess leiks verður þó væntanlega lengst minnst fyrir að fjórir leikmenn Fjarðabyggðar og báðir þjálfararnir voru skildir eftir í Reykjavík þegar flugvél Flugfélags Íslands hélt austur seinni partinn.
Hvasst var í borginni og þurfti að létta vélina til að koma henni á loft. Allur farangur var þannig skilinn eftir og fótboltamennirnir sem voru á ÍSÍ fargjaldi. Farið var fram á við KSÍ að leiknum yrði frestað en það fékkst ekki þar sem heimalið á ekki rétt á frestun.
Höttur vann Dalvík/Reyni í síðasta leik riðilsins á Fellavelli á sunnudag 5-4. Steinar Aron Magnússon skoraði þar þrennu fyrir Hattarmenn.
Í C deild kvenna vann Fjarðabyggð Tindastól 0-2 um helgina.