Lengjubikar: Höttur glutraði niður þriggja marka forskoti

hottur_valur_lengjubikar_26022012_0011_web.jpg

Höttur reið ekki feitum hesti frá Reykjavíkurferð sinni í Lengjubikar karla því liðið tapaði fyrir Leikni eftir að hafa komist 0-3 yfir í byrjun. Liðið beið einnig ósigur í Grindavík.

 

Leikurinn gegn Breiðholtsliðinu á föstudagskvöld byrjaði vel hjá Hetti. Stefán Þór Eyjólfsson kom liðinu yfir strax á 19. mínútu og í kjölfarið fylgdu tvö mörk Elvars Þórs Ægissonar á næstu fimm mínútum.

Leiknismönnum tókst hins vegar að jafna fyrir hálfleik og létu kné fylgja kviði með þremur mörkum í viðbót um miðjan seinni hálfleik. Stefán Þór lagaði stöðuna með tveimur mörkum í uppbótartíma.

Höttur tapaði síðan 4-1 fyrir Grindavík á sunnudag. Staðan var 3-0 fyrir heimamönnum í hálfleik. Högni Helgason skoraði mark Hattar í lokin en Pape Mamadou Faye skoraði þrennu fyrir Grindavík.

Höttur leitar nú að markverði fyrir sumarið en ljóst er að Ásgeir Magnússon, sem spilaði með liðinu í fyrra, verður ekki með í ár. Samkvæmt heimildum Agl.is er meðal annars leitað út fyrir landssteinana að markverði.

Þá halda vangaveltur um hugsanlega þátttöku Ívars Ingimarssonar áfram. Ívar, sem verið hefur atvinnumaður í Englandi í á annan áratug, flutti austur í Egilsstaði með fjölskyldu sinni um síðustu helgi. Hann er væntanlegur á æfingar með liðinu um og eftir páska en alls er óvíst um þátttöku hans í sumar. 

Sóknarmaður er einnig á óskalistanum fyrir átökin í fyrstu deildinni í sumar. Davíð Einarsson, sem raðaði inn mörkum í öðrum flokki KR í fyrra, er væntanlegur austur til reynslu um páskana.

Leiknir tapaði 3-4 fyrir Magna í Lengjubikarnum um helgina. Vilberg Marinó Jónasson skoraði tvö mörk fyrir Leikni og Almar Daði Jónsson það þriðja. 

Leiknir og Sindri mætast í Síldarvinnslumótinu í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 19:00 í kvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar