Lykilatriðinu að kasta stígvélinu ekki of hátt

Heimamaðurinn Ívar Sæmundsson fór með sigur af hólmi í stígvélakasti, lokagrein Landsmóts UJMFÍ fyrir 50 ára og eldri sem haldið var í Neskaupstað um helgina. Ívar fór með fern gullverðlaun heim af mótinu úr kastgreinum sem hann hafði aldrei prófað áður.

„Nei, ég hef aldrei kastað stígvélum áður – en mér fannst það gaman,“ segir Ívar og hlær.

Heimamenn voru sigursælir í síðustu grein mótsins og unnu þrefalt í flokki karla 50-69 ára. Ívar kastaði 26,91 metra, Hjörvar Moritz Sigurjónsson varð annar með kasti upp á 26,76 og Sigurður Sveinsson þriðji með kasti upp á 25,34.

Í flokki karla 70 ára og eldri vann Gunnar Örn Guðmundsson úr Njarðvík með að kasta 20,61 metra, Þórbergur Þórðarson frá Akranesi varð annar með 19,7 og þriðji Ragnar Jónsson úr Neskaupstað með kasti upp á 18,69.

Heimakonum vegnaði einnig vel. Stefanía Stefánsdóttir vann flokk 70 ára og eldri með kasti upp á 11,84 metra. Arnfríður Aðalsteinsdóttir úr Þingeyjasýslum vann flokk 50-69 ára með kasti upp á 21,04 metra. Guðrún Smáradóttir úr Neskaupstað varð önnur með kasti upp á 19,71 og Sigurveig Róbertsdóttir kastaði 19,69.

Í stígvélakastinu kasta keppendur stígvéli aftur fyrir sig úr kyrrstöðu. Þeir hafa annars mismunandi tækni. Mælt er síðan frá þeim stað þar sem stígvélið stöðvast. „Þetta snýst um að kasta stígvélinu ekki of hátt heldur hafa það í þokkalegri hæð og láta það rúlla,“ segir Ívar.

Ívar fór heim eftir helgina fjórum gullpeningum ríkari því hann sigraði einnig í kringlukasti, lóðkasti og spjótkasti í sínum aldursflokki. „Ég hef engan grunn í kastgreinum. Mig hefur alltaf langað til að prófa kringlukast og skráði mig því í það. Hinar greinarnar gat ég skráð mig í á staðnum. Þetta er ágætis árangur.“

Mótinu var svo slitið að loknu stígvélakastinu. Landsmót 50 ára og eldri hefur verið haldið frá árinu 2011 en þetta er í fyrsta sinn sem það er haldið á Austurlandi. Næsta mót verður í Borgarnesi að ári. „Mér fannst mjög gaman að vera með í þessu móti. Það er áhugavert að sjá allt fólkið sem kemur og hvað allir skemmta sér vel.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.