„Maður verður að henda frá sér allri neikvæðni“
„Segja má að þetta hlaup sé ólympíuleikar fjallahlaupanna og var þetta verkefni stóra markmiðið mitt í ár, en þarna koma saman allir bestu fjallahlauparar heims,“ segir Norðfirðingurinn Þorbergur Ingi Jónsson vann enn eitt afrekið í ofurhlaupi á dögunum þegar hann hafnaði 32. sæti í einu af erfiðustu hlaupum heims. Hann segir hlaupin styrkja sig sem einstakling.
Um er að ræða rúmlega 170 kílómetra hlaup í Ölpunum þar sem hækkunin er tíu kílómetrar. Er þetta lengsta og um leið erfiðasta hlaupið sem Þorbergur Ingi hefur keppt í en hann hefur í tvígang keppt í öðru Mount-Blanc-ofurhlaupi, CCC-hlaupinu, en það er 101 kílómetri auk þess sem hækkunin nemur um 6.100 metrum.
„Þetta er sterkasta og þekktasta „últrahlaup“ í heiminum, mekka fjallahlaupanna,“ segir Þorbergur Ingi, en talað er um últrahlaup þegar vegalengdin fer yfir maraþon, sem er 42,2 kílómetrar. Hlaupið var hringinn í kringum Mont Blanc; frá Frakklandi til Ítalíu, þaðan til Sviss og aftur til Frakklands. Alls taka 2500 hlauparar þátt hverju sinni. Hann gerði sér lítið fyrir og hafnaði í 32. sæti sem verður að teljast mjög góður árangur.
„Ég ákvað að klára þetta fyrir alla hina“
Þorbergur Ingi hafði áður lengst hlaupið rétt rúma 100 kílómetra. „Þetta er talsvert mikið lengra en það og bara allt annað dæmi, en ég var tæpa 26 tíma á hlaupum (25,57). Lagt var af stað um kvöldmat, hlaupið inn í nóttina og ég var að koma í mark um klukkan átta kvöldið eftir. Maður var þá búinn að vera vakandi í marga tíma áður en hlaupið hófst og það var erfiður faktor. Einnig reyndist mér erfitt að þurfa að borða mat en hingað til hefur verið nóg fyrir mig að taka inn orkugel, kolvetnadrykki og kannski borða súkkulaði. Eftir tólf tíma á hlaupum segir líkaminn hins vegar stopp og maður verður að taka inn almennilega fæðu, fitu og prótein,“ segir Þorbergur Ingi, en hann átti í erfiðleikum með að nærast þegar 100 kílómetrar voru að baki.
„Ég er ekki vanur því að þurfa að borða stærri máltíðir á hlaupum. Maginn sagði stopp af öllum sykrinum og gat ég því ekki nærst í marga tíma. Þar af leiðandi kláraði ég mig hálfpartinn og var við það að gefast upp og var nánast hættur á tímabili. Eftir 135 kílómetra var ég alveg búinn, lappirnar bara hreyfðust ekki lengur og hausinn var búinn að vera sljór lengi,“ segir Þorbergur Ingi, sem leitaði aðstoðar á drykkjarstöð. „Ég lagðist aðeins niður, lokaði augunum og fékk smá nudd á lappirnar. Þar stöppuðu félagar mínir í mig stálinu og minntu mig á að þetta væri ekki aðeins fyrir mig gert heldur allt fólkið mitt. Við það varð markmiðið allt annað og ég ákvað að klára þetta fyrir alla hina.“
„Þetta styrkir mig sem einstakling“
Aðspurður hvað það er sem hlaupin gefi honum segir Þorbergur Ingi: „Hlaup sem þessi eru drulluerfið og maður verður að henda burtu allri neikvæðni og í raun vera ofurjákvæður. Þetta styrkir mig sem einstakling. Að sigrast á sjálfum sér er alltaf gott.“