Magnús Benediktsson framkvæmdastjóri Fjórðungsmóts hestamanna
Magnús Benediktsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjórðungsmóts hestamanna á Austurlandi sem haldið verður á Stekkhólma 6. – 9. júlí í sumar.Í tilkynningu er Magnús sagður vel kunnur meðal íslenskra hestamanna, bæði úr félagsstarfi og viðburðum. Hann býr á Selfossi en hefur um áraraðir stýrt viðburðum á borð við Landsmóti hestamanna, Fjórðungsmóti Vesturlands og stóðhestaveislum auk annarra viðburða.
„Þetta er þéttur hópur af fólki sem ég var að hitta hér fyrir austan. Það er greinilegt að það er mikil gleði og kraftur í Freyfaxafélögum sem halda mótið og ég sé að þetta verður fjör.
Það er búið að vinna flotta undirbúningsvinnu. Ég sé fyrir mér þessa gleði og stemmingu sem getur myndast á svona mannamóti eins og Fjórðungsmótin eru en er erfitt að skapa á hefðbundnari mótum,” er haft eftir Magnús í tilkynningu.
„Síðan get ég bara ekki annað en minnst á það að veðrið hérna er á einhverju öðru stigi. Ef þetta heldur svona áfram þá vildi ég hvergi annars vera aðra helgina í júlí.“
Fjórðungsmót hestamanna á Austurlandi er haldið á fjögurra ára fresti. Þar fer fram keppni í gæðingaflokkum í öllum aldursflokkum, í opnum flokki sem og áhugamannaflokkum. Einnig verður boðið upp á keppni í töltgreinum og 100 metra skeiði. Samhliða verður haldin opin kynbótasýning Fjórðungsmóts í samstarfi við RML, þar sem hægt er að skrá kynbótahross í sýningu af öllu landinu.
Magnús var klæddur í gamla græna Freyfaxajakkann af framkvæmdanefndinni í gærkvöldi. Mynd: Hestamannafélagið Freyfaxi