Man aldrei eftir að við höfum verið sóttir upp á skíðasvæði

Sævar Guðjónsson, leiðsögumaður hjá Ferðaþjónustunni Mjóeyri, hefur staðið á skíðum í um fjörutíu ár. Hann segir fá svæði jafnast á við Ísland þar sem hægt er að skíða frá fjallatoppum niður að sjávarmáli.

Rætt er við Sævar í nýrri heimildamynd um skíðaiðkun á Íslandi „Seeking Asgaard: Ski Life Stories from Iceland.“ Um er að ræða rúmlega tveggja tíma mynd sem framleidd er til að kynna möguleika á skíðaiðkun á Íslandi. Farið er víða um land, til Ísafjarðar, Dalvíkur og Eskifjarðar meðal annars.

Í myndinni rifjar Sævar upp æskuna á Eskifirði og frelsið sem hann hafði til að leika sér úti allan daginn þar sem fjöllin fyrir ofan bæinn voru leiksvæðið.

Hann segist hafa verið sex ára þegar hann eignaðist fyrstu skíðin, gömul timburskíði. Þá voru engir skíðaskór heldur gúmmístígvél. Þá voru engar skíðalyftur heldur var gengið upp í fjallið og skíðað niður til að mynda för.

Þá rifjar Sævar að faðir hans hafi gjarnan skutlað honum og bræðrum hans árla dags upp í Oddsskarði og þeir hafi síðan rennt sér niður í byggð þegar þeim þótti komið nóg. „Ég man aldrei eftir að við höfum verið sóttir upp á skíðasvæðið.“

Sævar, sem er maðurinn á bakvið skíðahátíðina Austurland Freeride Festival, sem hefst á morgun segri Austurland og Ísland í heild frábært til skíðaiðkunar. „Það er ekki víða sem hægt er að skíða úr 1100-1200 metra hæð og niður að sjávarmáli. Það er það einstaka við Austfirði eða Ísland í heild.“

Hann bendir einnig á að innviðir til fjallaskíðamennsku séu góðir, oftast góðir akvegir að fjallarótum báðu megin frá. Sævar segir mikið land ónumið í skíðamennsku hérlendis. „Ég hef verið á skíðum í 40 ár og er enn frumkvöðull. Hér eru margar leiðir sem ekki hafa verið farnar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar