Matthías: Leikskipulagið gekk upp

matthias_haraldsson_blak.jpg

Matthías Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Þróttar í blaki, segir margt jákvætt hafa leynst í leik liðsins gegn Aftureldingu í dag í úrslitum bikarkeppninnar þótt hann hafi tapast 0-3. Leikskipulagið hafi til dæmis gengið upp.

 

„Heilt yfir er frammistaðan ásættanleg. Við lögðum upp með að keyra mikið inn á miðjuna, sem hefur vantað í vetur. Það hjálpar köntunum og teygir á blokk andstæðinganna,“ sagði Matthías í samtali við Agl.is eftir leikinn.

„Uppgjafirnar voru góðar. Við ætluðum okkur að pressa þær vel og láta frelsingjann hlaupa. Það gekk upp framan af.“

Þróttur var inni í öllum hrinunum þremur og gjarnan yfir framan af eða um þær miðjar. Þegar á leið seig Afturelding fram úr. „Móttakan klikkaði í lokin á meðan þær héldu pressunni allan tíman. Það vantaði herslumuninn síðasta spölinn.“

Matthías segir marga jákvæða punkta hafa verið í leik Þróttarliðsins um helgina. Lokaumferðir deildakeppninnar verða eftir tvær vikur. Þróttur mætir þá fyrst HK og síðan Þrótti Reykjavík í borgarferð.

Liðið þarf eitt stig til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. Hulda Elma Eysteinsdóttir bætist þá í leikmannahópinn en hún var ekki gjaldgeng í bikarnum eftir að hafa leikið í honum með Eik áður en hún skipti yfir í Þrótt.

„Það munar miklu um að fá hana á kantinn í úrslitakeppninni,“ sagði Matthías. „Þróunin hefur klárlega verið upp á við hjá okkur í vetur. Við eigum líka fleiri ungar stelpur á bekknum sem ekki komu inn á í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.