Matthías Haralds: Slokknaði á liðinu eftir fyrstu hrinu

Kvennalið Þróttar datt úr leik í undanúrslitum Íslandsmótsins í blaki eftir 3-1 tap gegn HK í oddaleik á föstudagskvöld. Þjálfarinn segir leikinn hafa valdið vonbrigðum en segist heilt yfir sáttur við veturinn hjá ungu liði.


„Það hefði verið gaman að komast í úrslitin og svona stuttu eftir leik hefði maður viljað komast lengra. Maður verður samt að vera nokkuð sáttur við veturinn.

Við komumst í bikarúrslit þar sem við hefðum vissulega viljað spila betur í úrslitaleiknum en þetta er ásættanlegt miðað við ungan hóp,“ sagði Matthías í samtali við Austurfrétt í morgun.

Þróttur byrjaði leikinn vel og vann fyrstu hrinu 21-25. Í kjölfarið fylgdu tvær arfaslakar sem HK vann 25-12 og 25-13. Sú fjórða var jafnari en HK var þá með tök á leiknum og vann hana 25-19.

„Við byrjuðum leikinn eins og við ætluðum og höfðum stjórn á leiknum í fyrstu hrinu. Síðan er eins og slokkni á okkur eftir fyrstu hrinuna og eftir hana gekk fátt upp.

Móttakan var léleg sem leiddi meðal annars til þess að sóknin var ekki nógu beitt og við gátum engan vegin komið boltanum í gólfið hjá þeim. Við áttum séns í fjórðu hrinu en hann var ekki meiri en að við héngum í þeim.“

Þróttur náði þriðja sæti í deildinni í vetur eftir góðan kafla eftir áramót. Margir leikmenn voru að spila sína fyrstu heilu leiktíð með aðalliðinu.

„Það er engin spurning um að liðið hefur verið vaxandi í allan vetur. Vissulega hafa komið lægðir en heilt yfir hefur það verið á uppleið.“

Ljóst er að einhverjar breytingar verði á liðinu í sumar. Þá bíður hann sjálfur eftir staðfestingu á eigin framtíð.

„Minn samningur er að renna út og það er í höndum stjórnar blakdeildarinnar hvað gerist. Ég hef sagt að ég hafi áhuga á að vera áfram svo þetta skýrist vonandi á næstu vikum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar