Meira en tvöfalt fleiri ætla að synda Urriðavatnssund en í fyrra

Sprenging hefur orðið fjölda þátttakenda í Urriðavatnssundi sem fram fer á laugardagsmorgun. Forsvarsmenn sundsins segja það afrakstur af auknum áhuga á hreyfingu í íslenskri náttúru.


Í fyrra þreyttu 54 sundmenn sundið. Í vor seldust 100 sæti hratt upp þannig að bætt var við og er búist við 120 sundmönnum á laugardag.

„Ég held að þessi fjöldi skýrist fyrst og fremst af auknum áhuga almennings á hreyfingu, ekki síst þeirri sem tengist því að vera úti í íslenskri náttúru,“ segir Pétur Heimisson sem er einn af forsvarsmönnun sundsins.

Hann segir samvinnu við fleiri hreyfiviðburði einnig skipta máli. Sundið er framlag Austurlands til landvættaþrautarinnar þar sem ein ofurþraut er í hverjum fjórðungi. Þá fellur það undir austfirsku þríþrautina Álkarlinn auk hjólreiðakeppninnar Tour de Ormsins og Barðsneshlaups.

„Þótt þessi þríþraut sé enn í frumbernsku þá held ég að hún eigi eftir að skipta miklu máli, sérstaklega gegn íbúum Austurlands.“

Þetta er í sjöunda sinn sem Urriðavatnssundið er synt. Þrjár vegalengdir eru í boði eins og síðustu ár, 400 metra sund, 1,25 km og 2,5 km en langflestir eru í lengsta sundinu.

Auknum fjölda þátttakenda fylgir aukið umstang. „Það eru fleiri þættir sem hugsa þarf um og leggja meira á sig til að tryggja góðan aðbúnað bæði sundmanna og áhorfenda,“ segir Pétur.

Björgunarsveitarfólk sér um öryggismál og fylgir keppendum eftir á léttum bátum úti í vatninu. „Þetta væri ekki hægt án þeirra aðkomu.“

Sundið verður ræst í tveimur hollum, hið fyrra klukkan 8:45 á laugardagsmorgun og hið seinna er áætlað klukkustund síðar. Veðurspáin er góð og segir Pétur von á áhugaverðum og fallegum viðburði í fallegri náttúru.

Þeim tilmælum er beint til gest að sameinast í bíla að Urriðavatni þar sem bílastæði eru af skornum skammti og aka varlega í grennd við keppnissvæðið þar sem mikil fólksumferð verður.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.