Meiriháttar tilfinning að landa titlinum

Haraldur Gústafsson úr SkAust varð um helgina Íslandsmeistari í bogfimi með sveigboga. Þetta er fyrsti titill Haraldar utanhúss í opnum flokki en hann hefur verið í fremstu röð bogfimimanna hér á landi undanfarin ár. Guðný Gréta Eyþórsdóttir vann einnig til verðlauna á mótinu.

Íslandsmeistaramótið fór fram á Víðistaðatúni í Hafnarfirði og var láni keppenda verulega misskipt hvað varðar veðrið. Á laugardag var keppt með berboga og trissuboga og þá var hávaðarok á keppnisstað sem skiljanlega gerði bogfimifólkinu erfitt fyrir. Á sunnudag var hins vegar ágætis veður og þá var keppt með sveigboga. Haraldur tryggði sér sigurinn með glæsibrag, lagði Íslandsmeistarann innanhúss í úrslitaviðureigninni og hafði áður lagt fráfarandi Íslandsmeistara utanhúss í undanúrslitum.

Auk Haraldar keppti Guðný Gréta Eyþórsdóttir einnig fyrir hönd SkAust á mótinu. Hún hreppti bronsverðlaun í kvennaflokki með berboga og saman hrepptu hún og Haraldur einnig bronsið í tvíliðaleik með sveigboga.


Þrautseigjan skilaði árangri

„Þetta var mjög gott mót, kannski sérstaklega fyrir mig, en almennt mjög gott mót líka þó aðstæður væru erfiðar fyrri daginn. Ég byrjaði í bogfimi 2013 og fór þá strax að mæta á þessi mót og berjast áleiðis að titlinum. Það er meiriháttar tilfinning að hafa loksins náð að landa honum,“ sagði Haraldur glaður í bragði þegar Austurfrétt náði tali af honum.

Óhætt er að segja að titillinn núna sé afrakstur mikillar þrautseigju og æfinga, en Haraldur er fimmtugur á árinu og er einnig Íslandsmeistari í öldungaflokki og á Íslandsmetið þar. Þá vann hann til bronsverðlauna með landsliði Íslands á Smáþjóðaleikunum 2017 en einstaklingstitillinn í opnum flokki hafði runnið honum úr greipum fram að þessu.


Kynslóðabil í bogfiminni

Andstæðingur Haraldar í úrslitum var sem fyrr segir Íslandsmeistarinn innanhúss sem er töluvert yngri en hann. Í umfjöllun á vefsíðunni archery.is er til þess tekið að um þessar mundir eigi sér stað ákveðin kynslóðabarátta innan bogfiminnar. Unga kynslóðin hafi haft yfirhöndina á innanhússmótinu en þau eldri svarað fyrir sig núna. Haraldur getur tekið undir þetta

Það hefur einhvern veginn orðið þannig að þetta eru tveir meginhópar. Það eru unglingarnir, sem eru á hraðri uppleið, og svo við sem eldri erum en það eru fáir keppendur á milli í aldri. En andinn er góður, báðir hópar eru þrælgóðir og semur vel þrátt fyrir aldursmuninn.“

Þó að titillinn góði sé loks í höfn er Haraldur alls ekkert hættur. „Ég ætla að reyna að halda áfram að keppa og kenna öðrum. Ég byrjaði að þjálfa fyrir austan fyrir nokkrum árum og það eru reglulegar æfingar. Þátttakan er misjöfn, þetta kemur og fer svolítið. En bogfimi er maraþonhlaup en ekki sprettur,“ segir Haraldur að lokum.


Haraldur Gústafsson átti mjög góðan keppnisdag á sunnudag. Mynd: archery.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.