Met féllu í Götuþríþrautinni á Eskifirði

Fjögur met féllu í Götuþríþrautinni á Eskifirði síðastliðinn laugardag. Helga Árnadóttir frá Höfn í Hornafirði bætti metið í ólympískri vegalengd um tæpa klukkustund.



„Þetta gekk rosalega vel, mætingin var svipuð og áður, veðrið var frábært og þá eru allir svo glaðir og jákvæðir,“ sagði Hildigunnur Jörundsóttir, einn skipuleggjenda þríþrautarinnar í samtali við Austurfrétt.

Hvert metið af öðru var slegið. Helga Árnadóttir setti met í ólympískri vegalengd á tímanum 2:51:03, en hún samanstendur af 1,5 kílómetra sundi, 40 kílómetrum á hjóli og 10 kílómetra hlaupi. Helga á einnig núverandi metið í sprint vegalengdinni, en það setti hún í fyrra.

Einnig féll met í liðakeppni í ólypískri vegalengd, en það voru þau Ingunn Eir Andrésardóttir, Jóhann Helgason og Sigurður Freysteinsson sem kláruðu þrautina á 2.41:02.

Birkir Gunnlaugsson setti met í sprint vegalengd í flokki 14-25 ára, en hún samanstendur af 750 metra sundi, 20 kílómetrum á hjóli og 5 kílómetra hlaupi. Birkir kláraði þrautina á 01:22.46 sem er stórglæsilegur tími.

Síðast en ekki síst féll met í supersprint-vegalengd, en í þeim flokki keppa fullorðnir og börn saman og synda 400 metra, hjóla 10 kílómetra og hlaupa 2,5 kílómetra. Það voru mæðginin Berglind Þorbergsdóttir og Þorbergur sem unnu flokkinn á tímanum 43:55. Þau lentu í vandræðum á sjálfan keppnisdaginn þar sem þau ætluðu að vera þrjú, en einn úr liðinu forfallaðist, svo Þorbergur leysti bæði hjól og hlaup meðan móðir hans synti.


„Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi“

„Jú, ég er ánægð með árangurinn, en maður vill alltaf gera betur. Ég þarf greinilega að æfa meira í brekkum, en það er annað landslag á Eskifirði en Hornafirði og þessar brekkur voru mjög erfiðar,“ segir Helga Árnadóttir, 37 ára methafi í ólympískri vegalengd kvenna.

„Segja má að ég sé með „comeback“ núna, en ég og maðurinn minn æfðum mikið kringum árið 2010 þegar ég keppti meðan annars í heilum járnkarli, sem samanstendur af 3800 metra sundi, 180 kílómetra á hjóli og svo er hlaupið heilt maraþon.

Í millitíðinni hef ég átt tvö börn og eru strákarnir orðinir þriggja og fimm ára í dag. Ég ákvað að byrja aftur og ætla að taka þátt í hálfum járnkarli í Hafnarfirði, fyrstu helgina í júlí. Þetta mót var því hluti af því æfingaferli.“

Aðspurð að því hvað fái hana til þess að taka þátt í þessu segir hún; „Þetta er bara svo rosalega skemmtilegt og líka gott fyrir líkamann að æfa þrjár greinar í einu, í stað þessa að vera alltaf að gera það sama. Þetta krefst mikil skipulags með stóra fjölskyldu og með vinnu, en ég vakna klukkan sex á morgnana til þess að æfa. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi,“ segir Helga.

Hér má sjá öll úrslit og myndir frá keppninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar