Miðvörðurinn bauð sig fram í markið: Hver veit nema hann endi þar

Stefan Spacic, sem vanalega spilar í vörn Hugins, varði mark liðsins í 1-1 jafntefli gegn Magna í annarri deild karla í knattspyrnu í gær.


„Bergsveinn (Magnússon) aðalmarkvörður er meiddur og Jón Kolbeinn (Guðjónsson) sem er hættur en hefur hlaupið í skarðið þegar við höfum þurft á að halda var erlendis þannig að Spaca bauð sig fram í verkefnið.

Hann stóð sig mjög vel og varði einu sinni glæsilega. Hver veit nema hann endi sem markvörður,“ segir Brynjar Skúlason, þjálfari Hugins, um hinn óvænta markvörð í gær. Brynjar segir að ekki sé ljóst hversu alvarleg meiðsli Bergsveins, sem kom til liðsins í haust, séu.

Dagur Már Óskarsson, fyrrum leikmaður Leiknis Fáskrúðsfirði, kom Magna yfir á 63. mínútu en Króatinn Teo Kardum jafnaði á 72. mínútu.

„Mér fannst við hefðum átt að vinna leikinn miðað við færin en fengum á okkur klaufamark eftir horn. Þeir fengu 2-3 góð færi en við 6-7 svo það er okkar aulaskapur að hafa ekki unnið þennan leik.“

Huginn hefur leikið tvo heimaleiki í vor og hafa þeir báðir verið spilaðir á Fellavelli. „Seyðisfjarðarvöllur er ömurlegur eins og alltaf og verður um ókomna tíð meðan ekki eru til peningar til að laga hann. Við biðjum um að það rigni ekki mikið og þá getum við notað hann eitthvað í sumar.“

Síðbúið sigurmark Einherja

Í sömu deild vann Höttur sinn fyrsta leik í sumar þegar liðið tók á móti Völsungi á laugardag. Steinar Aron Magnússon og Ignacio Martinez skoruðu tvö mörk hvor í 4-2 sigri.

Þá tapaði Fjarðabyggð 2-1 fyrir Víði í Garði. Zuran Vujovic kom Fjarðabyggð yfir á 6. mínútu.

Í fyrstu deild karla tapaði Leiknir 1-3 fyrir HK. Coco kom Fáskrúðsfirðingum yfir á loka mínútu venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik en gestirnir jöfnuðu á þriðju mínútu uppbótartíma. Þeir bættu síðan við tveimur mörkum í seinni hálfleik. Það fyrra skoraði Norðfirðingurinn Hákon Þór Sófusson.

Einherji vann dramatískan 1-2 sigur á Þrótti Vogum á útivelli í þriðju deild karla. Viktor Daði Sævaldsson skoraði sigurmark Einherja á fimmtu mínútu uppbótartíma. Hann kom inn eftir um hálftíma leik fyrir Sigurð Donys Sigurðsson sem meiddist. Todor Hristov kom Einherja yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Kvennalið Einherja tapaði hins vegar fyrir Völsungi 2-0 á Húsavík í annarri deild kvenna.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.