Mikilvægur sigur Hattar á Hamri
Lið Hattar er komið í þriðja sæti 1. deildar karla í körfuknattleik eftir 85-70 sigur á Hamri á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld. Liðin höfðu sætaskipti en þriðja sætið veitir heimaleikjarétt í undanúrslitum.
Gestirnir frá Hveragerði leiddu aðeins í blábyrjun, eftir tæpar fjórar mínútur voru þeir 5-9 yfir. Þá snéru Hattarmenn leiknum snarlega við með þrettán stigum í röð og litu aldrei til baka. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 18-14 og í hálfleik 39-25 þótt Hamarsmönnum tækist að jafna í 23-23 snemma í öðrum fjórðungi.
Hamarsliðið sá ekki til sólar í seinni hálfleik. Eftir þriðja leikhluta var staðan 67-49 og í lokin gat Höttur leyft sér að gefa yngri leikmönnum tækifæri.
„Liðið spilaði mjög vel og þetta var okkar leikur allan tíman,“ sagði Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar eftir leikinn. „Vörnin er að smella. Hún er allt önnur eftir áherslubreytingar sem við gerðum eftir tvo slappa leiki í byrjun janúar,“ sagði Viðar en gaf ekki nánar upp hvaða breytingar það hefðu verið.
Mike Sloan átti stórleik í liði Hattar, skoraði 35 stig, tók 9 fráköst, sendi 9 stoðsendingar og stal fimm boltum. Andrés Kristleifsson skoraði 15 stig og Trevon Bryant ellefu.
„Mike var frábær. Útlendingarnir og smáguttarnir voru flottir, svo kom einn 16 ara inn í lokin og skoraði sin fyrstu stig. Við erum með marga sem geta tekið af skarið og það hjálpar.“
Höttur og Hamar eru jöfn í þriðja sæti með 18 stig en Höttur hefur betur í innbyrðisviðureignum. Sex stig eru í ÍA í sjötta sætinu og því ætti Höttur kominn í úrslitakeppnina.
Liðið á mikilvægan leik á morgun klukkan 14:00 gegn Skallagrími í Borgarnesi en Borgarnesliðið er í öðru sæti. Höttur spilar gegn ÍG í Grindavík á föstudagskvöld en lýkur deildarkeppninni á heimavelli gegn Breiðablik þann 9. mars.