Miklar breytingar á liðum Þróttar milli ára

Miklar breytingar hafa orðið á bæði karla- og kvennaliði Þróttar í blaki frá síðustu leiktíð. Karlaliðið hefur titilvörn sína gegn Hamri í Hveragerði annað kvöld.

Enginn Íslandsmeistari var krýndur síðasta vor þar sem ekki náðist að klára tímabilið áður en íþróttastarf var takmarkað vegna Covid-19 faraldursins. Karlalið Þróttar var hins vegar efst þegar keppni var hætt og fékk afhentar deildarmeistaratitil.

Útlit er fyrir erfitt tímabil og samkvæmt spá Blakfrétta mun liðið enda í þriðja sæti. Það tók þátt í Ofurbikar Blaksambandsins um síðustu helgi og endaði í fjórða sæti.

Miklu munar um að Galdur Davíðsson er farinn til Danmerkur þar sem hann mun spila með Marienlyst. Auk þess verða hvorki Jesus Montero né Atli Fannar Pétursson með liðinu í vetur. Í staðinn er kominn Spánverjinn Francisco Jose Lopez Barrionuevo frá Almeria.

Raul Rocha, sem þjálfaði bæði meistaraflokkslið Þróttar er horfinn á braut eftir einn vetur. Í staðinn hefur verið samið við Gonzalo Garcia Rodriguez, sem líkt og Raul þjálfaði áður í Fjallabyggð. Rocha hefur að auki þjálfaði í heimalandi sínu, Spáni og Perú.

Enn meiri breytingar eru á kvennaliðinu. Tinna Rut Þórarinsdóttir mun spila í Svíþjóð í vetur auk þess sem þær Eyrún Sól Einarsdóttir, Hrafnhildur Ásta Njálsdóttir og Kristrún Thanyaton hafa allar yfirgefið félagið. Fleiri yngri leikmenn sem voru á leið upp í meistaraflokk fóru einnig.

Tveir nýir Spánverjar hafa bæst við kvennaliðið, þær María Jiménes Gallego frá Alicante og Maria Eugenia Sageras sem lék með Fjallabyggð síðasta vetur.

Kvennaliðið spilar tvo leiki gegn Þrótti Reykjavík um helgina. Liðið varð líkt og karlaliðið í fjórða sæti Ofurbikarsins en er spáð því fimmta hjá Blakfréttum.

Deildarmeistaratitilinum fagnað í vor. Mynd: Blakdeild Þróttar


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.