Miklar breytingar í blakinu á Norðfirði: Nýr þjálfari kynntur

matthias_haraldsson_blaktjalfari_jun11.jpgBlakdeild Þróttar í Neskaupstað kynnti í dag Matthías Haraldsson til sögunnar sem nýjan þjálfara meistaraflokks kvenna. Fjórir lykilmenn eru á förum frá liðinu sem vann alla titlana í vetur auk þjálfarans.

 

Matthías Haraldsson er með meistaragráðu í íþrótta- og heilbrigðisfræði frá Syddans Universitet í Óðinsvéum í Danmörku. Hann spilaði og þjálfaði þar í landi á árunum 2002-2008 og hampaði bæði lands- og bikarmeistaratitlum.

„Við teljum okkur afar lánssöm að hafa fengið Matthías sem þjálfara og hans bíður spennandi verkefni að setja saman lið fyrir næstu leiktíð,“ segir í tilkynningu frá stjórn blakdeildarinnar

Fyrr í vikunni varð ljóst að Apostlov Apostolov, sem þjálfað hefur liðið með glæsilegum árangri tæki við nýliðum Aftureldingar á næstu leiktíð. Kona hans, Miglena sem verið hefur besti maður Þróttar undanfarin ár og dóttirin Kristina fylgja. Ennfremur fer Zaharina Filopva einnig frá Þrótti til Aftureldingar. Hin efnilega Helena Kristín Gunnarsdóttir flyst einnig til Reykjavíkur á næstu leiktíð.

Þá er fallinn dómur í máli Fríðu Sigurðardóttur, leikmanns HK sem gekk berserksgang eftir oddaleikinn gegn Þrótti um Íslandsmeistaratitilinn í vor. Eftir að spennuþrungnum leiknum lauk hellti Fríða sér yfir annan dómarann, neitaði að taka við silfurverðlaunum sínum og grýtti sjálfum Íslandsmeistaratitlinum út í vegg áður en Þróttarstúlkur hófu hann á loft. Fyrir þetta fékk hún tveggja leikja bann sem hún tekur út næsta haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar