Mjög spenntar en líka smá stressaðar

Fjöldi Norðfirðinga er á leiðinni fljúgandi og keyrandi til Reykjavíkur í dag til að fylgja eftir liðum Þróttar sem taka þátt í úrslitakeppni bikarkeppninnar í blaki. Athyglin er samt mest á meistaraflokki kvenna sem mætir Aftureldingu í undanúrslitum keppninnar á morgun.

„Okkur líst mjög vel á leikinn. Við erum mjög spenntar fyrir að gera okkar besta en líka smá stressaðar því Afturelding er með mjög sterkt lið,“ segir Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar.

Afturelding og HK hafa verið ríkjandi í kvennablakinu hérlendis undanfarin fimm ár en Þróttur hefur haft tök á þeim í vetur og vann Aftureldingu tvisvar undir lok deildakeppninnar.

„Við eigum að hafa – og höfum – bullandi sjálfstraust en það er aldrei einfalt að keppa við Aftureldingu. Við búumst allar við spennandi og erfiðum leik.“

Hún segir marga leikmenn Þróttar stríða við smávægileg meiðsli en mestar áhyggjur í vikunni hafi verið af Paulu del Olmo Gomez. Hún sé þó öll að koma til og verði vonandi með í leiknum klukkan þrjú í Digranesi í Kópavogi á morgun.

Stelpurnar verða vel studdar af fjölda Norðfirðinga þar sem bikarúrslit yngri flokka verða einnig um helgina. „Það mæta margir foreldrar líka, meira að segja mamma Paulu sem kemur frá Spáni. Hún pantaði sér flug á miðvikudag.

Af öðrum viðburðum helgarinnar má benda á leiksýningar. Gamanleikritið Hellisbúinn verður sýnt í Valaskjálf í kvöld.

Á morgun sýnir Leikhópurinn Lotta Galdrakarlinn í Oz í Valaskjálf. Leikhópurinn hefur verið á ferð um Austfirði með hina sígildu sögu og sýnir á Vopnafirði seinni partinn í dag.

Þá býður björgunarsveitin Sveinungi íbúum á Borgarfirði á skyndihjálparnámskeið í Fjarðarborg um helgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.