Ná árangri í tölvuleikjum og viðhalda tengslum

Um fjögur ár eru síðan nýjasta deildin innan Ungmennafélagsins Austra var stofnuð og hefur sú deild vaxið og dafnað vel á þeim tíma. Hér verið að meina rafíþróttadeild félagsins, hvers forsprakkar hafa verið duglegir að koma deildinni á framfæri. Nánast frá upphafi hefur verið boðið upp á ýmis konar námskeið og leiðsögn fyrir börn og unglinga sem vilja ná árangri í hinum og þessum tölvuleikjum.

Síðastliðin 30 til 40 ár, allar götur síðan tölvuleikir fóru virkilega að ná almennum vinsældum, hefur ekkert skort á viðvörunarraddir sérfræðinga, foreldra, skólayfirvalda og jafnvel stjórnvalda, um hræðileg áhrif slíkrar iðju á óhert börn og ungmenni. Tölvuleikir væru velflestir ofbeldisfullir og spilun slíkra leikja gæti síast ómeðvitað inn í huga ungmennanna sem svo yrðu ofbeldisfull í kjölfarið.

Ármann Jakobsson, formaður rafíþróttadeildar Austra, segir að nýrri vísindarannsóknir sýni að fátt bendi til að leikir eða ofbeldisfullir leikir, hafi nokkur neikvæð áhrif á ungmenni til lengri tíma litið, heldur þvert á móti fái margir góða útrás í leikjaspilun og séu þar ekki óvirkir áhorfendur eins og þegar horft er á sjónvarp. Þvert á móti þurfi snögg viðbrögð og enn sneggri hugsun til að bregðast við í velflestum tölvuleikjum.

„Ég ætla ekki að gera lítið úr þeim er hafa þá skoðun að leikir séu af hinu verra þó sjálfur sé ég á öðru máli. En það er eitt og annað sem gleymist og til dæmis sú staðreynd að með rafíþróttadeildum eða námskeiðshaldi eins og við bjóðum þá geta börn og unglingar tekið þátt með vinum og jafnöldrum í eigin persónu. Það er að segja að þau einangrast ekki heima við ein í tölvunni á bak við luktar dyr, sem er vissulega vandamál og ekki hvað síst í fámennum byggðum þar sem úrval afþreyingar er yfirleitt minna en í borgunum. Það er alltaf betra að gera eitthvað saman með vinum sínum en að tengjast þeim aðeins í gegnum netið.“

Sífellt fleiri sækja námskeiðin


Aðstaða Austra er með miklum ágætum og þar er reglulega boðið upp á mismunandi löng námskeið í mismunandi leikjum sem henta ýmsum aldurshópum. Ármann segir aðsókn vera almennt góða en það fari þó eftir leikjum.

„Það hefur verið takmörkuð aðsókn í þau námskeið þar sem verið er að einbeita sér að einum leik í einu eins og FC24 eða CounterStrike. En á námskeiðið sem við köllum rafmix, þar sem flakkað er á milli ýmissa leikja, hefur verið góð aðsókn og er það reyndar fullsetið í vetur.“



Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.